149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

bætt umhverfi menntakerfisins.

325. mál
[16:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að koma í ræðustól og ræða menntakerfið. Ég vil byrja á því að segja að það sem skiptir auðvitað mestu máli er að allt menntakerfið okkar sé samkeppnishæft. Eftir að hafa farið mjög gaumgæfilega yfir alþjóðlegar samanburðarrannsóknir er það kannski einkum þrennt sem einkennir framúrskarandi menntakerfi. Ég ætla að byrja á því að nefna það, áður en ég fer að svara því hvernig við högum þeim málum er tengjast alþjóðlegum skólum.

Það er í fyrsta lagi hugarfar. Hugarfar stjórnvalda á sveitarstjórnarstigi, að þau ákveði að forgangsraða fjármunum í þágu menntakerfisins — og geri það, standi við það. Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega gert það. Það er verið auka framlög er varða framhaldsskóla og háskóla. Mikil og metnaðarfull stefnumótun á sér stað.

Í öðru lagi, sem ég mundi í raun og veru vilja kalla í fyrsta lagi, er að starfsumhverfi kennara sé framúrskarandi. Ef þjóðum á að vegna vel þarf að huga að kennurum viðkomandi ríkja. Og öll þau menntakerfi sem eru samkeppnishæf og sem laða að bæði börn og ungt fólk og fólk sem vill fara í háskólanám eru þannig að staða kennarans er mjög sterk. Og í þriðja lagi skiptir verulegu máli að hugarfarið sé með þeim hætti að allir geti lært, að í boði sé nám og möguleikar fyrir börn og ungt fólk sem eru þess eðlis að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.

Þetta þrennt verður að vera til staðar.

Því miður hefur það gerst á undanförnum árum að við erum í mikilli kennaraþörf. Það átti sér stað eftir að námið var lengt. Þá minnkaði ásókn í kennaranám og við höfum þurft að fara í umfangsmiklar aðgerðir til að snúa þessari þróun við. Þær voru kynntar núna í byrjun mars og ganga út á að lokaárið í starfsnámi verði greitt. Við erum að tala um styrk fyrir kennaranema og við erum, núna frá því á síðasta ári, loksins farin að sjá — í fyrsta sinn eftir mikla fækkun — aukningu inn í kennaranámið, um 50% í Háskólanum á Akureyri og 15% í Háskóla Íslands.

Það er alveg ljóst að ef við ætlum að vera með framúrskarandi og samkeppnishæft menntakerfi þurfum við að huga að þessum þáttum og sérstaklega að kennurum landsins.

Við erum með alþjóðaskóla sem hafa staðið sig nokkuð vel. Ég er sammála hv. þingmanni um að samkeppni um búsetuskilyrði milli landa skiptir miklu máli og eykst með hverju árinu sem líður. Fólk á auðveldara með að flytja á milli landa en áður og festa þar rætur. Einn helsti þátturinn sem fólk lítur til við val á búsetulandi er menntakerfið og gæði þess. Þetta skiptir fólk alveg gríðarlega miklu máli. Við þekkjum það bæði innan ríkja og á milli ríkja. Það er alveg ljóst að við þurfum að tryggja góða samfellu skólastiga og að skólarnir séu aðgengilegir.

Á Íslandi starfa nú tveir skólar sem fylgja erlendum námskrám: Sjálfstætt rekinn grunnskóli, þ.e. alþjóðaskólinn við Sjálandsskóla í Garðabæ sem ég heimsótti nýverið, og hinn er í deild innan opinbers framhaldsskóla, svokallað IB-nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, sem veitir sambærileg réttindi og stúdentspróf. Að auki var stofnuð alþjóðadeild við Landakotsskóla árið 2015 til að mæta þörfum fólks sem flytur til landsins vegna atvinnu sinnar með börn á skólaskyldualdri og fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna sem flytja til landsins. Deildin er einnig opin fyrir aðra. Deildin er rekin með heimild frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem þróunarskóli. Menntamálastofnun hefur fengið gögn frá skólanum um viðurkenningu Cambridge Assessment á deildinni og úttekt Reykjavíkurborgar á skólanum og mun úttekt á þessu verkefni klárast í vor.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það felast mikil tækifæri í því að bjóða upp á nám í alþjóðaskólum og alþjóðadeildum sem njóta opinberrar viðurkenningar. Eitt af því sem Landakotsskóli hefur nefnt er að lengja námið. Ég er mjög jákvæð gagnvart því. Ég tel að það geti verið mikill hagur að því að hafa nám frá sex ára og upp úr og (Forseti hringir.) að klára menntaskólastigið þar.

En fyrst og síðast skiptir miklu máli að við leggjum mikinn metnað í þetta til þess að við getum laðað til (Forseti hringir.) landsins fólk sem hefur metnað fyrir menntun.