149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

bætt umhverfi menntakerfisins.

325. mál
[16:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég svara með svona afgerandi hætti og nefni kennarana og starfsumhverfi þeirra er mjög einföld. Ef þessi mál eru ekki í lagi verðum við ekkert með samkeppnisfæra skóla. Ég beini því til hv. þingmanns að huga líka að grunninum. Við þurfum að fara svolítið aftur og vera með sterkari grunn.

Það er nefnilega þannig að eitt af því sem fyrirtæki og alþjóðleg fyrirtæki horfa til, og ég vil beina því til hv. þingmanns, er: Hver er staða viðkomandi ríkja, til að mynda í PISA? Og staða Íslands er ekki nægjanlega góð. Við höfum verið að dragast aftur úr. Við erum núna neðst í lestri og stærðfræði og náttúrulæsi á Norðurlöndunum og undir OECD-meðaltalinu. Við þurfum að bæta grunninn í íslensku menntakerfi. Og sú vegferð sem er hafin hvað þetta varðar snýr auðvitað fyrst og síðast að kennurunum, svo að þeim líði þannig að þeir séu með tæki og tól til að bæta menntakerfið okkar. Við byrjum þar.

Annar hv. þingmaður spurði út í þær aðgerðir sem við erum að fara út í. Þær eru auðvitað mjög merkilegar vegna þess að ég held að það sé núna í fyrsta sinn verið að ráðast í aðgerðir hjá ríkisvaldinu í samstarfi við sveitarfélögin sem byggjast á færnispá. Að segja: Heyrðu, staðan árið 2018 er þessi, við höfum svona marga kennara en okkur skortir svona marga kennara árið 2032.

Þannig að við erum mjög framsýn með þessar aðgerðir. Þær kosta á ári um 250 milljónir og eru að fullu fjármagnaðar í nýrri ríkisfjármálaáætlun.

En ég segi: Mestu máli skiptir að styrkja grunninn. Ef grunnurinn er góður verðum við með framúrskarandi menntakerfi og það er það sem við ætlum okkur.