149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:56]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál ásamt hinum sé loks komið fram og við getum núna farið að ræða raunverulegar staðreyndir málsins eins og það liggur fyrir, ekki einhverjar óljósar upphrópanir og rökvillur eins og því miður hefur verið í umræðunni, líkt og hæstv. ráðherra kom inn á í ágætri ræðu áðan.

Hæstv. ráðherra kom einnig inn á að ýjað hefur verið að mörgu til að afvegaleiða umræðuna. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að spyrja hann nokkurra beinna spurninga sem hafa verið áberandi í umræðunni og vonandi gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að koma með skýr svör fyrir umræðuna fram undan. Er eitthvað í þessari löggjöf að mati hæstv. ráðherra sem þýðir að raforkumannvirki eða dreifing orkunnar verði ekki lengur í opinberri eigu? Er eitthvað í löggjöfinni sem hefur áhrif á vald Íslendinga yfir eigin auðlindum, þ.e. skilyrði orkunýtingar, val okkar til að ákveða orkugjafa eða almenna tilhögun orkuafhendingar? Leggur þriðji orkupakkinn á einhvern hátt á okkur skyldu til að koma á fót sæstreng?