149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að við séum með belti og axlabönd og í smekkbuxum, eins og hv. þingmaður vísaði til. En mér finnst samt sem áður margt sem hefur komið fram í þessari umræðu, þó hún hafi ekki öll verið málefnaleg, eitthvað sem við eigum að ræða af fullri alvöru og þetta er ekki verri tími en hver annar. Sumir hafa lýst yfir áhyggjum út af auðlindastýringu sem tengist þessu máli ekki beint en er gríðarlega stórt mál fyrir okkur og við eigum að ræða þau mál og taka þau alvarlega. Við erum í þeirri einstöku stöðu að vera með endurnýjanlega orkugjafa en við getum skaðað þá ef við förum ekki varlega. Og þó það tengist ekki þessu þá breytir það því ekki að við verðum að halda vöku okkar því að við höfum séð mörg dæmi víða um heim þar sem menn hafa ekki gengið varlega um mikilvægar orkuauðlindir, og þar hefur farið illa.

Við þurfum líka að ræða margt fleira sem snýr að þessum mikilvægu málum. (Forseti hringir.) Ég vonast til að við getum nýtt þessa umræðu til uppbyggilegra hluta og að við stöndum uppi með betri mál þegar kemur að orkumálunum eftir en áður.