149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af orðum hv. þingmanns, „verður ekki aftur snúið.“ Til hvers er hv. þingmaður að vísa? Er hv. þingmaður að segja að við getum ekki sagt upp EES-samningnum? Er hv. þingmaður að segja það? (ÓÍ: Nei.) Hv. þingmaður sagði áðan, þótt hann kalli nei fram í núna: Verður ekki aftur snúið. (ÓÍ: Hvers lags málflutningur er þetta, hæstv. ráðherra?) Hv. þingmaður verður að ákveða hvort hann standi við fyrri orð sín eða ekki. (ÓÍ: Svaraðu spurningunni.) Hann getur þá bara dregið þau til baka.

Hér eru álitsgerðir. Það hefur aldrei komið fram á þann hátt, þar sem ég hef farið sérstaklega yfir þá þætti málsins. Alveg sama hvernig hv. þingmaður reynir að snúa þeim málum er það bara þannig og liggur fyrir, og það veit hver sem vill og getur lesið það, að farið er eftir ráðleggingum þeirra sem höfðu mestar áhyggjur af þeim þætti málsins. Það er ekki samstaða meðal fræðimanna. Þeir voru reyndar þeir einu sem töldu að hætta væri á því að við gengjum lengra en stjórnarskráin heimilaði. En það er farið eftir ráðleggingum þeirra.