149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tek undir með honum, það er mjög mikilvægt að vera á varðbergi þegar kemur að orkuauðlindum okkar. Við höfum að sjálfsögðu ákveðna fyrirvara hvað þá varðar, alla nýtingu, og ekki síður þegar kemur að nýtingu sjávarauðlindarinnar, sem er fyrir utan EES. Við þurfum að vera á varðbergi þar.

En ég frábið mér það, og þess vegna vil ég hæla ráðherra fyrir ræðuna, að við hér í þinginu tökum undir það lýðskrum sem verið hefur í gangi í tengslum við þetta mál og þá óvissu og það óöryggi sem ákveðin öfl í samfélaginu vilja spila á. Það er bull og ég er fegin því að hæstv. ráðherra er mjög afgerandi í þessu máli, þó að ég skilji það mjög vel og viti að það eru ákveðnar efasemdir hugsanlega innan hans baklands og fleiri flokka.

En við þurfum að þora að tala skýrt og segja hlutina eins og þeir eru. Eftir þá viku sem ráðuneytið hefur tekið sér til þess að fara yfir málið, það má gagnrýna það, (Forseti hringir.) kemst það að sömu niðurstöðu og allir okkar helstu sérfræðingar. Þetta stríðir ekki gegn stjórnarskránni (Forseti hringir.) og við Íslendingar höfum allar heimildir og full yfirráð yfir okkar auðlindum. Því hefur hæstv. utanríkisráðherra gætt sérstaklega að.