149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þykir það ljóður á ráði hæstv. utanríkisráðherra að hann skuli kjósa að gera fjarveru formanns Miðflokksins, sem er staddur erlendis á vegum Alþingis, tortryggilega.

Hitt er svo annað mál að ég get glatt hæstv. ráðherra með því að þau okkar sem hér eru munu að sjálfsögðu halda uppi þróttmiklum málflutningi í þessu máli og skiptast á skoðunum við ráðherra. Mér sýnist nú og heyrist á öllu, m.a. því sem kom fram í máli hans, að ekki veiti af.

En ég ætla að segja aftur það sem ég sagði áðan. Mér finnst það ekki sæmandi að verið sé að reyna að gera tortryggilegt þegar þingmenn eru erlendis á vegum þingsins í embættiserindum. Mér þykir það ekki sæmandi utanríkisráðherra.