149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þriðji orkupakkinn liggur nú fyrir Alþingi. Það er óhætt að segja að fá mál að undanförnu hafi hreyft meira við fólki en spurningin um hvort við Íslendingar séum í þann mund að afsala okkur yfirráðum yfir orkuauðlindum þjóðarinnar í hendur erlendu valdi. Málið er stórt, hvernig sem á það er litið, enda lýtur það að fullveldi þjóðarinnar, stjórnarskrá og hagsmunum Íslendinga.

Fyrsta spurningin í málinu, herra forseti, er kannski þessi: Af hverju liggur þetta mál fyrir Alþingi? Að formi til snýst það ekki síst um flutning á orku þvert á landamæri. Þetta á við í Evrópu og þar sem tök eru á að flytja orku um sæstrengi milli landa. Þetta á ekki við um okkur sem búum ekki að búnaði til að tengjast orkubúskap annarra þjóða meðan ekki er lagður sæstrengur að landsins ströndum. Við höfum undanþágur frá Evrópureglum um skipaskurði og járnbrautir, eftir því sem best er vitað. Af hverju á slík undanþága á ekki við í þessu efni þegar tengingin við Evrópu er ekki fyrir hendi?

Næsta spurning er þessi: Hver er ávinningurinn fyrir íslenska þjóð af því að samþykkja þriðja orkupakkann í heild sinni? Engin svör liggja fyrir við þeirri spurningu.

Það eru tvær reglugerðir Evrópusambandsins sem ber hæst í málinu. Það er nr. 713, um nýja evrópska stofnun, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, oft er vísað til skammstöfunar hennar á ensku, ACER. Hin er um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og er nr. 714.

Það liggja fyrir, eins og hér hefur komið fram, ítarlegar greinargerðir í málinu. Í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst um stjórnskipuleg álitamál, tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB og EFTA vegna þriðja orkupakka ESB, er rauði þráðurinn varnaðarorð um að fyrirhugað framsal standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Segja þeir í niðurlagi álitsgerðar ekki vera fordæmi fyrir slíku valdframsali til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins.

Það er niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi, eins og þeir orða það, leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Vísa höfundar til hinna almennu stjórnskipulegu viðmiðana sem líta beri til í þessum efnum og er sérstaklega tekið fram að sjónarmið um forsendur EES-samningsins, afmörkun framsalsins og víðfeðmi þess vegi þungt í þessu sambandi.

Höfundar vekja athygli á stöðu Eftirlitsstofnunar Evrópu, ESA, gagnvart þessari ACER-stofnun. Hvað EFTA-ríkin snertir er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnunin farið með þær valdheimildir sem ACER eru veittar í reglugerð nr. 713, m.a. lagalega bindandi ákvarðanir er varða „grunnvirki yfir landamæri“, sem er einhvers konar dulmál fyrir sæstreng. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að ACER hafi mikil áhrif á efni slíkra ákvarðana ESA og skulu ákvarðanir ESA m.a. teknar á grundvelli draga sem ACER semur fyrir ESA.

Þessi drög eru sem sagt runnin undan rifjum ACER.

Segja höfundar að slíkt fyrirkomulag falli illa að tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem er meðal þeirrar viðmiðunaratriða sem litið er til við mat á því hvort framsal ríkisvalds til alþjóðlegrar stofnunar rúmist innan stjórnarskrárinnar. Höfundar taka fram að ákvæði reglugerðar nr. 714 — áður var talað um nr. 713 — kunni að vekja upp hliðstæð stjórnskipuleg álitaefni og heimildir ESA til að taka lagalega bindandi ákvarðanir samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713.

Enn fremur taka höfundar sérstaklega fyrir d-lið 1. mgr. 37. gr. tilskipunar nr. 72/2009, en samkvæmt því ákvæði er meðal skyldna landsbundinna eftirlitsstaðla í aðildarríkjunum að, með leyfi forseta:

„fara að, og framkvæma, allar viðeigandi lagalega bindandi ákvarðanir [ACER] og framkvæmdastjórnarinnar.“

Umfjöllun höfunda um reglugerðir 713 og 714, auk ákvæðisins í 37. gr. tilskipunar nr. 72/2009, gerir að verkum að telja verður mjög varhugavert að samþykkja orkupakkann. Höfundarnir, Stefán Már og Friðrik Árni, veita skýr svör um hvað tæki við ef hann yrði ekki samþykktur hér.

Þeir segja, með leyfi forseta:

„Færi svo hins vegar svo að Ísland hafni því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, þá leiðir af 103. gr. EES-samningsins að taka þyrfti málið aftur upp í sameiginlegu EES-nefndinni og leitast við að ná lausn þess. Þá tekur við málsmeðferð sem um getur í 102. gr. EES-samningsins. […]

Skal sameiginlega EES-nefndin leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri.“

Þetta er á blaðsíðu 24 í álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna, sem ég hélt í einfeldni minni að væri enn í fullu gildi. Mér heyrist á ráðherra að svo sé e.t.v. að einhverju leyti ekki.

Herra forseti. Sú leið sem þarna er mörkuð af hálfu álitsgerðarhöfunda er varfærin, skynsamleg og eðlileg. Þetta er auðvitað leiðin sem ber að fara. Ríkisstjórnin ætti að draga málið til baka og vísa því í sáttaferli á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar á grundvelli ákvæða EES-samningsins sjálfs. Það er eðlilegasti hlutur í heimi.

Varúðarorð höfunda álitsgerðarinnar gera að verkum að við alþingismenn hljótum að taka mið af þeim, taka mark á þeim og breyta samkvæmt því. Allan vafa ber að sjálfsögðu að túlka stjórnarskránni — og þess vegna fullveldinu — í hag.

Herra forseti. Varðandi þá leið sem hér hefur verið valið að fara, að fella brott hinn stjórnskipulega fyrirvara með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og takast á hendur með því þær þjóðréttarlegu skyldur sem því fylgja: Það hefur ekki á nokkurn hátt verið sýnt fram á það í þeim lögfræðilegu álitsgerðum sem fyrir liggja að sú leið sé tæk. Það hefur ekki verið sýnt fram á það. Hæstv. ráðherra hefur ekki sýnt fram á það.

Þess vegna ber að hafna þessari tillögu, vísa henni til baka þannig að hún fái eðlilega og skynsamlega málsmeðferð.