149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:37]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kemst eiginlega ekki hjá því að höggva í sama knérunn og sá sem fyrstur veitti andsvar hér áðan. Upphaf ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar varð ekki skilið öðruvísi en svo að hann teldi að þjóðin væri að afsala sér yfirráðum yfir orkuauðlindinni í hendur einhverra alþjóðlegra stofnana með þriðja orkupakkanum.

Það verður að krefja hann svara. Hvar er þetta afsal? Hvar er að finna þetta afsal á yfirráðum þjóðarinnar yfir orkuauðlindum sínum?

Í annan stað er rétt hjá honum vísað í álitsgerð sérfræðinganna sem hér voru nefndir til sögunnar — hún er reyndar upp á 44 síður. Þingmaðurinn kaus að fjölyrða um málsreifun þeirra á fyrstu 42 blaðsíðunum en sleppa niðurstöðunni.

Í niðurstöðunni stendur að möguleg lausn á öllum þeim efasemdum sem þeir höfðu fram að færa á 42 síðum væri — hver? Jú, nákvæmlega sú sem ráðherrann leggur til í þingsályktuninni. Lausnin er þar og hana er þar að finna. Eins og þar stendur, að orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri o.s.frv. Hann bendir á lausnina, þessi fræðimaður sem hv. þingmaður vísaði til, í niðurstöðu álitsgerðarinnar.

En hv. þingmaður kýs að horfa algerlega fram hjá niðurstöðum fræðimannanna, kýs bara að tala um efasemdirnar sem þeir reifuðu fyrst. En lausnin sem þeir benda á er lausnin sem er farin og leiðin sem er farin.