149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Orðalagið er svona: „möguleg lausn“ en hún er „ekki gallalaus.“ (PállM: Og er ekki ein um það.) Við stöndum frammi fyrir mjög stórum spurningum hérna. Er það til of mikils mælst að ráðherra sé inntur eftir því með hvaða hætti sú lausn sem þarna er teflt fram standist þær kröfur sem til hennar verður að gera?

Spurningin er ósköp einfaldlega þessi: Dugir hinn lagalegi fyrirvari? Vegur hann upp á móti þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við erum að axla með því að samþykkja þennan pakka? Þetta er einföld spurning. Hún er eðlileg, hún er sanngjörn. Það er ekki spurning um einhverjar stofnanir, það eru nákvæmlega tilgreindar stofnanir. Það er ný stofnun sem er verið að setja á laggirnar með þessari reglugerð, 713. Það er útlistað hvert sé samband hennar og Eftirlitsstofnunar Evrópu.

Ég ætla nú ekki að segja að í þessu tilliti sé Eftirlitsstofnun Evrópu, oft kölluð ESA, nánast eins og skúffa í þessu ACER-dæmi þarna. En ACER leggur fram drög.

Það eru bara mjög alvarlegar spurningar og þær eru í þessari greinargerð Stefáns Más og Friðriks Árna um þetta. Þeir vekja meira að segja í þessu samhengi máls á hinni tveggja stoða lausn.

Þannig að þetta eru bara eðlilegar spurningar. Þessar spurningar eru þarna. Ég er ekkert að lesa þetta með neitt valkvæðum hætti. Ég er búinn að hafa tækifæri til að ræða af og til við ráðherra í dag og þakka honum kærlega fyrir hans svör. (Forseti hringir.) Ég er búinn að margnefna þessa lausn. Ég er búinn að margnefna það sem er þeirra niðurstaða og í þeirra lokaorðum: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“ Hverjir eru gallarnir? Hvar er lögfræðilega álitsgerðin um þá?