149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson fór allvíða í ræðu sinni og raunar einnig í andsvörum við hæstv. utanríkisráðherra áðan. Í ræðu sinni og í andsvörum við hæstv. utanríkisráðherra talaði þingmaðurinn um einhverja álitsgjafa sem ráðuneytið hefði leitað til. Í ræðu sinni hér áðan talaði hann síðan um virta lögfræðinga úti í bæ og í andsvari gaf hann í skyn að þessir álitsgjafar eða virtu lögfræðingar, hvort sem við köllum þá, hefðu að einhverju leyti, ég veit ekki hvernig á að orða það, beygt af eða skipt um skoðun, fyrir einhvern þrýsting frá hæstv. ráðherra eða ráðuneyti hans.

Þetta eru alvarlegar ásakanir sem hv. þingmaður ber hér fram. Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann: Er hv. þingmaður hér á opinberum vettvangi að efast um heilindi okkar virtustu lögfræðinga í stjórnskipunarrétti? Hvaða vegferð er hv. þingmaður á? Hvernig dettur hv. þingmanni í hug annars vegar að tala um okkar virtustu lögfræðinga en í næstu andrá að kasta rýrð á þá með þessum hætti?

Þingmaðurinn verður að svara þessu. Það er ekki hægt að koma hér í ræðustól og dylgja um fólk sem ekki hefur tækifæri til að svara fyrir sig og láta eins og það sé bara alveg sjálfsagt mál. Það er það ekki, herra forseti.