149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki áfellst nokkurn mann. Það er bara heill kafli í þessari álitsgerð sem er númeraður 6 sem fjallar um viðbrögð höfunda við athugasemdum sem bárust frá ráðuneytinu. Það er ósköp einfalt. Ég var bara að fjalla um það. Það eru engar dylgjur eða nein brigðmælgi í því að vitna til þess sem stendur í þessari álitsgerð.

Það er reyndar svolítið merkilegt að það kemur ekki fram berum orðum hvaða ráðuneyti þetta er. Ég gerði sérstaka tölvuleit í skjalinu en það kemur ekki fram. Ég geri hins vegar ráð fyrir að það sé utanríkisráðuneytið.

Þannig að hv. þingmaður getur alveg sparað sér öll stóryrði og upphrópanir og tal um að efast um heilindi. Það er ekkert hér, af minni hálfu, sem gefur tilefni til slíkra skútyrða og fáryrða af hálfu hv. þingmanns.