149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna því mjög að málið sé komið fram í þessum sal. Það er löngu tímabært að það sé rætt og ég fagna yfirlýstum vilja þingmanna að ræða það málefnalega og af yfirvegun. Ég held að það sé orðið tímabært.

Það kemur skýrt fram í ágætri samantekt sem fylgir málinu í greinargerð að sameiginlegur raforkumarkaður Evrópusambandsins hefur fylgt EES-samstarfinu svo að segja frá upphafi, skýrt að EES-samningurinn náði til raforkumála og fljótlega í framhaldi af gerð hans kom fyrsti orkupakkinn, svo sá annar og nú sá þriðji. Þegar farið er í umræðu um gagnsemi verkefna sem þessara gleymist kannski oft einmitt eðli EES-samstarfsins fyrir okkur. Það snýst ekki alltaf um okkur. Við megum ekki nálgast umræðuna af svona mikilli sjálfhverfu. Við eigum aðild að alls kyns þáttum í EES-samstarfinu sem snerta okkur alveg sáralítið en varða hinn sameiginlega innri markað í heild. Orkupakkinn tekur m.a. á sameiginlegum markaði með gas. Við erum ekkert sérstaklega að kvarta undan því að það snerti okkur ekki neitt, enda engri gasframleiðslu hér til að dreifa.

Við erum rétt liðlega 300 þúsund manna þjóð, sem hluti af 500 milljóna manna markaði, og stundum erum við að innleiða hér hluti sem snerta okkur afskaplega lítið, en það dregur ekkert úr gildi þeirra innleiðinga eða mikilvægi þess að við tökum þátt í áframhaldandi þróun samstarfsins um Evrópska efnahagssvæðið, því að ekki er til sá viðskiptasamningur sem við höfum gert sem hefur meira vægi í íslensku samfélagi fyrir íslenskt atvinnulíf og heimili en einmitt samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Hann er lifandi og hann þróast. Þetta er bara dæmi um enn eitt verkefnið þar sem við þurfum að fylgjast að í þróun þessa samstarfs.

Það gleymist líka þegar horft er á aðeins þrengri mynd varðandi mikilvægi sameiginlegs raforkumarkaðar í Evrópu, hvað sá markaður hefur þýtt í loftslagsmálum, þar sem einn meginútgangspunktur orkupakkanna, þess þriðja nú, hefur verið einmitt að ryðja burtu hindrunum og landamærum á raforkumarkaði til þess að draga úr orkusóun og gera Evrópu kleift að draga verulega úr losun sem fylgir raforkuframleiðslu í álfunni. Lykilþættirnir þar eru einmitt raforkuframleiðsla með sólarorku og vind, sem er óstöðug uppspretta raforku, og hefur ítrekað komið fram mikilvægi þess einmitt að þá sé sameiginlegur stór markaður sem geti tekið við sveiflum í þeirri framleiðslu. Þess vegna er svo mikilvægt að halda áfram að þróa þennan sameiginlega raforkumarkað. Þarna eigum við öll sameiginlega hagsmuni. Að draga úr losun vegna raforkuframleiðslu í Evrópu skiptir okkur heilmiklu máli, þó svo að við eigum ekki beina aðild að þeim sameiginlega raforkumarkaði með tengingum.

Það gleymist líka oft að ræða í þessu samhengi neytendaþáttinn, þ.e. hinn lykilþáttinn í sameiginlegum raforkumarkaði, að ná fram aukinni samkeppni, auknum ávinningi fyrir neytendur, fyrir atvinnulíf og fyrir heimili, af samþættum frjálsum raforkumarkaði. Það hefur tekist, líka hér. Ég ætla ekki að standa hér og halda því fram að samkeppni á innlendum raforkumarkaði sé fullkomin, hún er talsvert betri en einokunin sem við bjuggum við áður en við byrjuðum að innleiða hinn sameiginlega raforkumarkað. Með innleiðingu þriðja orkupakkans er einmitt verið að skerpa á heimildum fyrir Orkustofnun til að fylgja eftir virkni þessa markaðar, til að reyna að treysta samkeppnisumhverfi markaðarins til að treysta stöðu neytenda á raforkumarkaðnum. Það eru kannski megináhrifin af innleiðingu þriðja orkupakkans núna, sem hefur hins vegar afskaplega lítið farið fyrir í umræðunni. Og má kannski fagna því að það sé svona löng mælendaskrá að ræða loksins EES-mál og neytendamál í þessum sal. Stundum hefur farið hér lítið fyrir áhuga á neytendamálum, samkeppnismálum og EES-málum sérstaklega. Það er því ánægjulegt að sjá að það er að breytast.

Ég ætla ekki að eyða tíma í umræðu um sæstreng eða ekki sæstreng. Þetta mál snýst ekkert um sæstreng. Það er seinni tíma mál, er algerlega á okkar forræði og væri auðvitað óskandi að þá umræðu tækjum við af yfirvegun um kosti og galla. Það eru alveg augljósir kostir og það geta líka verið alveg augljósir gallar af sæstreng. Við eigum að taka þá umræðu af yfirvegun og komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvort við kærum okkur um slíka tengingu eða ekki, en hún hefur ekkert með innleiðingu á þriðja orkupakkanum að gera. Það hefur komið fram mjög skýrt í álitsgerðum sem fylgja þessu. Auðvitað er fagnaðarefni að sjá þá yfirlýsingu eða fréttatilkynningu Evrópusambandsins um sameiginlegan skilning hvað varðar gildissvið þriðja orkupakkans, að þar er staðfest það sem sagt hefur verið í umræðunni alveg frá upphafi að þau ákvæði sem snúa að flutningsvirkjum milli landa hafa náttúrlega ekkert gildi hér á meðan engin tenging er við Evrópumarkað, alveg með sama hætti og enginn hefur deilt á það að ákvæði um gasframleiðslu hafi ekkert gildi hér, enda enga gasframleiðslu hér að finna. Það er því mikið fagnaðarefni og ánægjulegt að sjá að nú er loks verið að draga staðreyndir þessa máls með ótvíræðum hætti fram í dagsljósið, sem leiðir hins vegar hugann að því af hverju búið er að þyrla upp svona miklu ryki í málinu.

Það er alveg magnað þegar maður sest yfir og skoðar hver áhrifin af þriðja orkupakkanum eru í raun, hversu mikið hefur verið reynt að tortryggja innleiðingu hans og jafnvel rætt um að þetta mál sé forsenda þess að við ættum að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef ekki heyrt heimskulegri staðhæfingu en þá, þar sem ætti að fórna, ég myndi segja nær öllum okkar hagsmunum í alþjóðaviðskiptum fyrir eitthvað sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekkert hagsmunamál fyrir okkur.

Gætt hefur verið vel að innleiðingu á þessu máli, vandað mjög vel til verks, enda búið að vera fjölmörg ár í undirbúningi af hálfu stjórnvalda, komið ítrekað til umræðu í þinginu, komið ítrekað til umsagnar fyrir þingnefndir og aldrei á nokkrum tímapunkti verið flaggað einhverri stórkostlegri vá við þessa innleiðingu. Ég held einmitt að nær væri að við töluðum um málið af yfirvegun og ró, byggt á rökum, en ekki að þyrla upp einhverjum hræðsluáróðri um meint áhrif sem engan veginn fást staðist þegar staðreyndir málsins eru krufnar.

Það er orðið löngu tímabært að sá háttur umræðunnar, sérstaklega þegar snýr að Evrópusamstarfinu, þessi vaxandi einangrunarhyggja, hræðsluáróður um samstarf okkar á alþjóðavettvangi, að því linni. Þeir sem á undan okkur komu í þennan sal á undanförnum áratugum og raunar frá upphafi fullveldis okkar og fyrr, hafa alltaf haft þá framsýni að leiðarljósi að við erum sjálfstæð, fullvalda þjóð, sem nýtum þetta sama fullveldi okkar til þess að semja m.a. um hagsmuni okkar á alþjóðavettvangi, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi þar sem hagsmunir okkar fara saman með nágrannalöndum okkar og við höfum haft gríðarlegan ávinning af því alþjóðlega samstarfi sem við höfum þróað á þeim áratugum, sérstaklega eftirstríðsárunum.

Það ber merki um framsýni, hugrekki, raunverulega leiðtoga fyrir hagsmuni þessarar þjóðar, en ekki hræðslu, heimóttarskap og einangrunarhyggju að draga okkur inn í einhverja skel og fórna miklu meiri hagsmunum sem við höfum af EES-samstarfinu fyrir einhverjar pólitískar keilur, sem á að reyna að slá með því að þyrla upp einhverju moldviðri í kringum innleiðinguna á þessum pakka.

Það verður mjög áhugaverð umræða um þriðja orkupakkann í þingsal næstu daga.