149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að hv. þm. Viðreisnar hefur ekki áhyggjur. 80% þjóðarinnar hafa hins vegar áhyggjur. 65% af kjósendum Viðreisnar virðast vera heimóttarlegir vantrúarmenn sem hafa ekki trú á upptöku þessa orkupakka, þannig að það er verk að vinna fyrir hv. þingmann og félaga hans í grasrótinni. En burt séð frá því vil ég gleðjast yfir því að hv. þingmaður sagði: Við opnuðum kjötmarkaðinn með pósitífum hætti. Á sama hátt erum við núna að opna fyrir þennan orkupakka með pósitífum hætti. En þessi orkupakki felst bara ekki í lagningu sæstrengs. Það er seinni tíma mál. Og þó að ýmislegt sé í fylgigögnum og fylgi tillögunni þessa máls núna, sem ýtir undir það að „ultimate“ markmiðið sé sæstrengur, þá fjallar þessi orkupakki um svo fjöldamargt annað. Hann fjallar t.d. um aðkomu landsins að verðlagningu á orku. Hann fjallar um yfirþjóðlega stofnun sem heitir ACER, sem mun stýra hér mjög miklu í orkumálum. Þess vegna segi ég við hv. þingmann: Virtir lögmenn hafa látið í það skína, og ekki bara látið í það skína, þeir hafa haldið því fram, að framsal á því valdi sem við erum með hérna í þessari umræðu núna, reyni alla vega mjög á þanþol stjórnarskrárinnar eða fari jafnvel í bága við hana.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi, af því að hann er áhyggjulaus, engar áhyggjur af því.