149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alltaf vera grautað saman í þessari umræðu hugsanlegum áhrifum þriðja orkupakkans í Noregi og hugsanlegum áhrifum þriðja orkupakkans hér á landi. Það er grundvallarmunur á áhrifunum af því að Noregur er tengdur evrópska raforkumarkaðnum, við ekki. Það kemur kannski ekki á óvart að þessu sé öllu grautað saman því að rökin virðast vera flutt inn frá norska Miðflokknum ásamt fjárhagslegum stuðningi við baráttuna hér, þannig að það hefur ef til vill gleymst að aðlaga þau í innleiðingu. [Hlátur í þingsal.] (ÞorS: Minntist ekki á það. Þeir eru hins vegar í málaferlum út af þessu.) En þar er kannski kjarni máls.

Verðlagning á raforku á Evrópumarkaði hefur ekkert að segja hér meðan markaðurinn hefur enga tengingu við evrópskan raforkumarkað, bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er alfarið á okkar forræði hvernig við ráðstöfum raforkuauðlindinni, hverjum við kjósum að selja eða ekki selja, hvernig við kjósum að þróa auðlindina áfram. Við erum ekki að takast á hendur neinar skuldbindingar um einhvers konar sölu eða útflutning á raforku til Evrópu, hvað þá að okkur sé á einhvern hátt skylt að tengjast evrópska markaðnum, bara ekki nokkur einasta leið að sýna fram á minnstu skref tekin í þá átt og alveg skýrt og sameiginlegur skilningur allra að þau mál eru algerlega á okkar forræði áfram.

Þess vegna finnst mér þetta alltaf vera sami hræðsluáróðurinn í umræðunni því að rökin standast ekki. Þegar við skoðum algerlega samdóma niðurstöðu fjölmargra lögspekinga, sem kemur mjög skýrt fram í gögnum þessa máls, má sjá að allt sem okkur snertir í innleiðingu þriðja orkupakkans stenst fullkomlega ákvæði í stjórnarskrá. Það yrði þá hreinlega sjálfstæð umræða, sem er löngu tímabær, í tengslum við EES-samstarfið um heimildarákvæði í stjórnarskrá varðandi framsal til alþjóðlegra stofnana, en þá umræðu hafa menn ekki viljað taka (Forseti hringir.) í þessum sal. Það er löngu tímabært að taka umræðu um slíkt ákvæði í stjórnarskrá (Forseti hringir.) til að auðvelda okkur áframhaldandi þróun EES-samstarfsins. En (Forseti hringir.) það er ekkert öðruvísi farið með þetta en önnur EES-mál.