149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 9þriðja2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þegar maður hlustar á umræðurnar kemur í ljós að í hnotskurn stendur þessi deila hér á Alþingi um þessa einu setningu: Íslendingar eru að tapa yfirráðum yfir orkuauðlindum sínum. Það er ekkert flóknara en það. Og stysta svarið er auðvitað nei af minni hálfu, og með það gæti ég farið héðan úr ræðustól. Þannig er sumt af þessu. Við erum mjög oft ekki að ræða saman. Ég hef fylgst mjög vandlega með andsvörum og málflutningi þeirra andstæðinga sem hæst tala og ég verð að játa að ég næ ekki upp í helminginn af þeim eða meiri hluta af þeim röksemdum eða staðhæfingum sem þar koma fram.

Það er nú svo að orka var skilgreind sem vara eða raforka. Það var gert með fyrsta og öðrum orkupakkanum. Þetta er vara sem hentar þá til viðskipta. Hún lýtur ekki sömu lögmálum og öll önnur vara þannig séð, ég ætla að koma að því á eftir, innan Evrópu. En gott og vel, það kemur í ljós að fyrsti og annar orkupakkinn hafa ekki valdið neinum stórkostlegum vandræðum á Íslandi eins og menn voru jú andsnúnir honum í upphafi. Og kannski hefðum við þá ekki skilgreint raforku sem vöru á Íslandi, það kann vel að vera. En þær undanþáguheimildir sem þá fylgdu hafa ekki verið nýttar. Flutningur og framleiðsla voru aðskilin og ég get ekki séð, a.m.k. ekki í þeim úttektum sem ég hef séð, að afleiðingar fyrsta og annars orkupakkans hafi verið neikvæðar, jafnvel þvert á móti.

Þriðji orkupakkinn fjallar um meðferð þessarar vöru, fjallar um viðstöðulítil viðskipti með raforku milli landa. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að orkuþörf hefur aukist, menn eru að hneigjast til orkuskipta, til vistvænnar orku. Þá er um að gera að reyna að nýta sameiginlega möguleika Evrópuríkjanna til að ná þeim markmiðum. Ástæðan fyrir þessum þriðja orkupakka er mjög ljós fyrir mér. En það sem orkupakkinn er ekki — hann snýst ekki um framleiðslumagn, þ.e. hversu mikil raforka er framleidd í tilteknu landi, eða framleiðslutækin. Hann snýst heldur ekki um flutningskerfin sjálf nema þau sem fyrir eru, þ.e. það er ekki innbyggt í þriðja orkupakkann að Evrópusambandið geti skipað mönnum í tilteknu ríki að bæta við flutningskerfið. Það gengur ekki þannig fyrir sig. Það gengur á markaðsforsendum. Þetta snýst í sjálfu sér um frjáls viðskipti og samninga. Og þessi frjálsu viðskipti og þessir samningar eru á forræði hvers ríkis. Það er engin stofnun ESB sem getur skikkað land til aukinnar orkuframleiðslu eða til að fjölga flutningslínum, ekki frekar en þegar kemur að öðrum auðlindum, t.d. málmum. Málmar eru vara. Og það er ekki svo að hægt sé að skikka eitthvert tiltekið ríki til að framleiða meira af málmum og selja það yfir landamærin til næsta ríkis sem hefur þörf fyrir það. Þetta er ekki þannig.

Ég spyr því ágæta andstæðinga þriðja orkupakkans hér á þingi: Hvar kemur það fram að einhver stofnun eða einhver lagagrein í Evrópulögum geti skikkað land til að auka orkuframleiðslu eða fjölga flutningslínum? Hvar í þriðja orkupakkanum t.d. er það? Ef þið skoðið Svíþjóð með sitt mikla umframorkumagn, af því að þeir eru jú með kjarnorku og vatnsafl o.fl., Kýpur, með sitt töluvert mikla vindafl, Danmörku með vindafl og Rúmeníu með sín 6.400 MW af vatnsafli — bendið mér á lönd sem Evrópusambandið hefur gengið að og skipað að byggja fleiri vindmyllur, fleiri vatnsorkuver, selja meiri orku inn á netið og leggja fleiri flutningslínur, eða nýjar flutningslínur. Ég bíð eftir þeim ábendingum.

Við eigum vöru sem er eftirsótt, við skulum segja einhverjar ylræktarvörur. Skyldu svona kvaðir varða þær líka, af því það er frjálst flæði vara milli landa? Ég held að við ættum að draga þessa umræðu niður í raunveruleikann og skoða Evrópu.

Við setjum þá fyrirvara að sæstrengurinn sé á forræði þjóðarinnar sjálfrar. Við setjum þann fyrirvara að orka í hann sé líka á forræði þjóðarinnar sjálfrar. Hún er ekki til núna og dreifikerfið í landinu sjálfu, til að tengjast viðkomandi sæstreng, er líka á forræði þjóðarinnar sjálfrar. Þetta er sem sagt á forræði Alþingis. Ætlar einhver að mótmæla því, eða telja það ónógan fyrirvara, að allt þetta þrennt sé á forræði Alþingis?

Sæstrengurinn umræddi þarf 500–1.000 MW. Það eru kannski 200 MW til núna sem umframafl á Íslandi. Og hann þarf að ná yfir 1.200 km. Hann þarf að ná niður á 1.000–1.500 m dýpi. Þetta er mjög flókin tæknileg framkvæmd en möguleg. Þetta er því ekkert líkt þeim sæstrengjum sem hafa verið lagðir yfir Norðursjóinn eða Eystrasaltið eða annars staðar. Ég hef hitt þetta breska fyrirtæki. Þeir komu hingað með lobbíista til að ræða við okkur þingmenn, Atlantic Super Connection. Að hvers frumkvæði var það? Að frumkvæði ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Camerons. Þetta var samtal þeirra í milli sem leiddi til þess að það ágæta fólk kom hingað og þá var ekki þörf á að kanna neina fyrirvara. Þetta þótti dálítið sexí hugmynd, svo að ég slái nú um mig. Þeirra viðskiptahugmynd er hrein hagnaðarhugmynd. Þetta er hrein hagnaðardrifin hugmynd. Þetta er einkafyrirtæki sem fær stuðning frá breska ríkinu ef það getur fjármagnað þennan sæstreng að hluta. Þetta er brotabrot af orkuþörf Stóra-Bretlands, svona á við eina þokkalega borg þar, Glasgow eða eitthvað slíkt. Þannig að við skulum bara hafa það á hreinu. Auðvitað skiptir þetta okkur máli vegna þess að við fengjum hagstætt verð o.s.frv., en setjum þetta í rétt samhengi.

Á korti sem fylgir svokölluðum viðmiðunarreglum um orkuinnviði ESB frá 2013 er þessi frægi Icelink-strengur milli Íslands og Bretlands. Hann er settur þar að frumkvæði stjórnvalda annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar, en hann hefur enga lagalega bindandi þýðingu þótt hann sé á þessu korti. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem hafa verið settar fram um hvernig Ísland gæti tengst þessu raforkukerfi og það er enginn vandi að skipa svo fyrir að hann skuli tekinn út af þessu korti. Það er engin þjóðréttarleg skuldbinding fólgin í þessum Icelink-streng, ekki nokkur.

Satt að segja hef ég ekki náð upp í þá samsuðu sem ég nefndi áðan hjá þeim sem eru andsnúnir orkupakkanum, hann er jú þannig að hann höfðar til áhyggna fólks af auðlindum landsins, vissulega, en hann er líka til þess fallinn vegna þess að hann er svo oft á skjön við raunverulegar staðreyndir. Hann vekur tortryggni og vekur ótta um framtíð íslenskra orkuauðlinda. Og hann höfðar til þjóðarstolts, sem ég er ekki að tala niður. En þegar staðreyndirnar og röksemdafærslan er með þeim hætti sem verið hefur þá verður þessu ekki eytt með þeim hætti.

Það eru skýr skilaboð varðandi þennan streng. Það er ekki hætta á því að við missum nokkurn skapaðan hlut frá okkur. Það er að vísu eftirlitsheimild sem er í sjálfu sér jákvæð. En það er ekki svo að við séum að missa nokkurn skapaðan hlut frá okkur með þessum orkupakka. Það eru alveg skýr skilaboð. Sex álit lögfræðinga (Forseti hringir.) hafa verið samin. Það er búið að ræða hér um eitt. Það er lítið búið að ræða um önnur. En ég hvet ykkur (Forseti hringir.) til að lesa álit Skúla Magnússonar um þessa skyldu sem svo oft er verið að ræða um, að við verðum að tengjast innri markaði Evrópu.