149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðuna. Ég hjó sérstaklega eftir því að hann sagði að orkupakki eitt og tvö hefðu ekki valdið vandræðum. Nú langar mig aðeins að rifja upp fyrir hv. þingmanni hver afleiðingin af þeirri innleiðingu var á sínum tíma. Þá var í fyrsta skipti raforkan skilgreind sem markaðsvara, eins og kom hér fram. Í okkar litla samfélagi leiddi þessi uppskipting orkugeirans til meiri yfirbyggingar og dýrara kerfis með því að aðskilja vinnslu og dreifingu á rafmagni eins og við þekkjum. Þetta varð til þess að rafmagnsverð til heimila og fyrirtækja hækkaði. Það er athyglisvert að Vinstri grænir voru á móti þessum orkupakka hér á Alþingi og greiddu atkvæði gegn honum. Ég tel persónulega að þeir megi vera stoltir af því. Og það vekur óneitanlega furðu að þeir skuli núna styðja þriðja orkupakkann.

Ég get nefnt dæmi af hækkun á raforkuverði. Á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja á Suðurnesjum eru svokölluð köld svæði. Á einni nóttu eftir að þetta var samþykkt hér á Alþingi hækkaði raforkuverð til þessara heimila um 100% hvað varðar húshitun. Þetta kalla ég afleiðingar þessa orkupakka. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér í því. Þess vegna hræða sporin núna þegar rætt er um orkupakka þrjú.

Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þingmann: Var það röng ákvörðun af hálfu Vinstri grænna á sínum tíma að styðja ekki orkupakka eitt og tvö?