149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir prýðisræðu. Þingmaðurinn talaði um að það væri engin hætta á ferðum. Ég er ekki alveg svo sannfærður. Og þingmaðurinn minntist á í ræðunni sæstreng sem ekki er búið að leggja og að í ráðherratíð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, hefði verið haldinn fundur með Cameron, forseta Bretlands, um þessi mál. En á þeim tíma kom fram að ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og ákveðið var að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu á milli landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist gera fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að orkuverð til heimila og fyrirtækja hækkaði ekki. Þannig að hann var með fyrirvara um sæstrengsmálið, svo það sé sagt.

En af því að þingmaðurinn hefur ekki áhyggjur langar mig að spyrja hann út í eina af þeim áhyggjum sem ég hef og við fleiri: Að þessir fyrirvarar sem verið er að gera standist ekki, það sé ekki hægt að taka svona einhliða ákvörðun heldur þurfi sú ákvörðun að vera tekin af sameiginlegu EES-nefndinni svo hún standist. Þetta er ekki fullyrðing, heldur er þetta spurning. M.a. þess vegna viljum við hafna þessum orkupakka og vísa honum til sameiginlegu EES-nefndarinnar.