149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:30]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og fyrirvara: Ef hann snerist bara um orkuverð er það nú ekki stór fyrirvari miðað við að við værum að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum. Var enginn fyrirvari þar? Eða sáu menn það ekki fyrir sér einu sinni þá? Ég bara spyr. En látum það vera.

Ég ætla að fá að lesa hér upp, vegna þess að þetta snýst jú alltaf um þá skyldu okkar til að taka við sæstreng o.s.frv. Þetta er Skúli Magnússon, lögfræðingur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel rétt að láta þess getið að ég tel afar ólíklegt að fallist yrði á málsástæður á þessum grundvelli fyrir EFTA-dómstólnum. Kemur þar helst til að ákvörðun um lagningu sæstrengs, sem meðal annars myndi liggja um landgrunn í landhelgi Íslands, er háð fjölmörgum atriðum sem eru á forræði aðildarríkjanna og falla utan gildissviðs EES-samningsins. [...] Að mínu mati er því útilokað að sæstrengur til flutnings raforku yrði lagður án þess að Alþingi tæki afstöðu til málsins, annaðhvort með setningu almennra reglna eða með lögum sem lytu að framkvæmdinni sjálfri.“

Þannig að það eru engar efnislegar forsendur fyrir því að halda því fram að Ísland sé að missa yfirráð yfir orkuauðlindum sínum, það sé verið að neyða sæstreng upp á Ísland, að það sé hætta á því að orkuverð hækki o.s.frv. Þetta er allt bundið einu stóru „nema“. Þetta „nema“ lýtur að því að Alþingi Íslendinga vilji af einhverjum orsökum — það geta verið alls konar ástæður til þess, við skulum ekki gera lítið úr því — leggja sæstreng. Þá eru öll þessi gildisatriði þriðja orkupakkans gengin í gildi.

Og er ekki hægt að sættast á að þetta sé þannig í umsjón þjóðarinnar? Maður gæti jafnvel þá (Forseti hringir.) farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu.