149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:32]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Ég ítreka það að ég er ekki eins sannfærður og hv. þingmaður um að þetta standist, að þetta sé öruggt. Þess vegna förum við þessa leið í okkar flokki.

Það eru engar fullyrðingar í sambandi við það. Það hefur verið vitnað í álitsgjafa í dag og við munum örugglega gera það áfram. Þeir hafa ekki fullyrt heldur að allar þessar leiðir séu alveg skotheldar.

Það hefur líka verið talað um að við höfum aldrei hafnað EES-gerðum. Það er alveg rétt. En það er heldur engin hætta á ferðum þó að við gerum það. Það hef ég heyrt fræðimenn segja. Það er engin hætta á ferðum. Það er enginn voði í því að vísa þessu aftur til EES-nefndarinnar, fara þar vel yfir málið. Þar er rétti staðurinn til að fjalla um mál eins og þetta. Þetta er náttúrlega stórmál. Við erum að tala um miklu stærra mál en Icesave-málið var á sínum tíma. Þetta er svona grundvallarmál í mínum huga.