149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stærð þessa máls? Við erum að innleiða gerðir með þeim fyrirvara að þær gildi ekki, í raun og veru. Nema að þeim hluta sem snýr að eftirlitsstofnuninni, sem verður sjálfstæður eftirlitsaðili á Íslandi. Nema hér sé lagður sæstrengur.

Óttinn er þá sá, hlýtur að vera, að einhvern tímann í framtíðinni, þegar við verðum báðir liðnir undir lok, sé hér lýðræðislega kosin samkunda sem óski eftir þessum sæstreng af einhverjum orsökum. Og ef íslenskt samfélag, lýðræðislega starfandi — vonandi — kemur ekki í veg fyrir það af einhverjum orsökum, ætla ég að vera glaður í gröfinni. Og sömuleiðis ef hún gerir það og hafnar þessu, og Alþingi þar með, hafnar einhverjum slíkum tillögum, skal ég líka snúa mér í annan hring og vera glaður.

Vegna þess að málið er ósköp klippt og skorið þetta, eins og hæstv. utanríkisráðherra lagði á borð fyrir okkur: Allir þeir fyrirvarar sem eru gerðir um raforkuverð, um að hér þurfi að virkja út og suður, hér þurfi að leggja fullt af línum þvert ofan í deiliskipulög og mat á umhverfisáhrifum og hvaðeina, að við séum búin að missa yfirráðin yfir öllu ferlinu — þetta er svo fráleit hugmynd að ég vona að sem flestir Íslendingar sjái í gegnum þennan vef.