149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 9þriðja2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:36]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra yfirferð málsins. Mér finnst rétt að ræða hér um málið þannig að fólk geti tjáð sínar skoðanir og ekki sé verið að ræða um „lýðskrum“ eða „hræðsluáróður“. Þessi þingstóll er til að skiptast á skoðunum, setja fram gagnrýnar spurningar og komast að niðurstöðu um mál.

Ég vil líka geta þess í þessu sambandi að það er svolítið hvimleitt þegar fólk stendur hér í ræðustól og glottir og hlær og gerir lítið úr orðum fólks sem er að tjá skoðun sína. Ég ætla alla vega að reyna að tjá skoðun mína um þetta mál og vona að ég fái tækifæri og hljóð til þess.

Fyrir það fyrsta vill maður þakka fyrir að þetta er hér fram komið. Kannski má segja að það skipti mjög miklu máli að slík EES-gerð sé rædd hér á Alþingi. Það er ekki alltaf svo. Því miður fá EES-gerðir stundum litla umfjöllun og því fer sem fer, að við vöknum upp við að það er búið að samþykkja eitthvað sem hentar illa og kemur sér illa fyrir landið.

Ég sagði það hér í upphafi að ég hefði áhyggjur, eins og fleiri. Ég hef skoðað álitsgerðir sérfræðinga, m.a. þeirra sem hafa verið nefndir oft hér, og ég spyr: Ætlum við Íslendingar að afsala okkur valdi yfir náttúruauðlindum okkar, orkunni sem við höfum hér, hreinni og tærri?

Við börðumst fyrir því á sínum tíma, sem okkur bar, að ráða yfir fiskinum í sjónum. Og hvað verður næst? Það er kannski vatnið okkar eða loftið. Það er alveg rétt að spyrja að þessu. Því ef við viljum flytja út raforkuna okkar og selja hana til annarra landa, loftið okkar eða vatnið, bara til að hugsa fram í tímann, finnst mér að við eigum að gera það á okkar forsendum.

Ef Íslendingar ætla að tengjast öðrum löndum og selja orku til annarra raforkukerfa finnst mér að það eigi að gera á íslenskum forsendum, ekki á forsendum Evrópusambandsins.

Sú þingsályktun sem hér liggur frammi um innleiðingu þriðja orkupakkans frá Evrópusambandinu gerir ráð fyrir að komið verði á fót stofnun sem vinni á grundvelli ákvarðana sem Evrópusambandið leggur upp með. Stofnunin hefur fengið nafnið Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Ég vil vitna hér til álitsgerðar Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst þar sem segir, á bls. 4, með leyfi forseta, og hefur verið gert að umræðuefni hér í dag:

„Gert er ráð fyrir því að ACER“ — sem er orkustofnun Evrópusambandsins — „hafi mikil áhrif á efni slíkra ákvarðana ESA og skulu ákvarðanir ESA m.a. teknar á „grundvelli draga“ sem ACER semur.“

Hvað segir þetta okkur, ágætu þingmenn? Sem sagt: Orkustofnun Evrópu mun leggja línurnar um ákvarðanir í orkumálum Íslendinga. Ég hef smá áhyggjur. Það er bara einfaldlega þannig.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur Íslendinga? Þetta þýðir sem sagt að við missum yfirráð yfir orkuauðlindum okkar, raforkuverð gæti hækkað og raforkuverð hér á landi er það lægsta í Evrópu. Viljum við breyta því? Ég segi nei. Skoðanakannanir hér á landi sýna að íslenskur almenningur er á móti því að innleiða orkupakka þrjú. 80% þjóðarinnar eru á móti því að innleiða orkupakkann.

Ég vil líka í þessu sambandi minnast á þingsályktunartillögu sem hér hefur verið rætt um og verður rædd seinna á þingfundinum, sem er breyting á þingsályktun 26/148 sem fjallar um að samþykki Alþingis þurfi til að koma ef ætlunin er að leggja sæstreng og tengja þannig raforkukerfi Íslands við raforkukerfi annarra landa.

Ég vil segja: Þessi þingsályktunartillaga ver ekki sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar yfir orkuauðlindum hennar. Og hvers vegna segi ég það? Ef Alþingi samþykkir að leggja sæstreng til að bjarga grænni orku í Evrópu og uppfylla skilmála sem Evrópusambandið hefur samþykkt vegna Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál breytir sú samþykkt ekki því að ef gerðir sem hér hafa verið nefndar í dag, 713/2009 og 714/2009, verða samþykktar á Alþingi er orðin til stofnun sem hefur í hendi sér að taka ákvarðanir um íslenska raforku. Jú, vegna þess að þingsályktun um samþykkt Alþingis til að leggja sæstreng breytir engu vegna þess að ef þessar gerðir verða samþykktar er tilbúin stofnun, sem er algerlega tilbúin þegar og ef sæstrengur er lagður. Þannig að þess vegna er auðvitað bara galið að gera þetta svona, að mínu mati.

Það sem kemur fram líka í álitsgerð fyrrnefndra lögfræðinga er að þessi stofnun er á forræði ACER, Orkustofnun Evrópusambandsins, sem m.a. mælir fyrir um lagalega bindandi ákvarðanir yfir landamæri. Þetta er ekkert flókið. Eruð þið ekki búin að lesa á bls. 4 í álitsgerðinni? Ég bara spyr.

Það er fleira. En ég óska þess sem sagt að þingmenn ígrundi þetta mál vandlega og ég er auðvitað hingað komin til að lýsa minni skoðun. Ég hef sem betur fer ekki fengið mikinn hlátur, en ég óska bara eftir að fólk svari. En maður á að geta staðið hér og skipst á skoðunum án þess að fólk sé svona, hvað á ég að segja, með hálfgerðan dónaskap úti í sal. Ég varð vitni að því hér í dag. Mér finnst það ekki við hæfi á hinu háa Alþingi, það verð ég að segja.

Ég vil líka segja að við vitum að vald yfir orkuauðlindum þjóðarinnar er í höndum þjóðarinnar. Og viljum við ekki hafa það svo? Ég hef hreinlega áhyggjur af því að svo verði ekki þegar þessar tvær gerðir eru orðnar að lögum. Þá er tilbúið batterí, þegar og ef sæstrengur verður lagður. Og þetta batterí er undir yfirráðum Orkustofnunar Evrópusambandsins.

Ég vil hafna orkupakka þrjú og segi eins og aðrir ræðumenn hafa sagt hér áður — reyndar samflokksmenn mínir, svo það sé tekið fram: Vísa á þessu máli til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Íslendingar hafa aldrei hafnað EES-gerð en við megum alveg gera það og það gerist ekki neitt. Við þurfum að vanda okkur í þessu máli.

Kannski er ég algjörlega á villigötum. Ég held samt að svo sé ekki. Það er bara einfaldlega þannig.