149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er áhugavert að heyra hana segja — ja, ég get túlkað það sem svo að fyrrverandi og núverandi samflokksmenn hennar hafi greinilega sofið á verðinum miðað við orð hennar varðandi EES-gerðir, eins og hún komst að orði áðan. Þannig að það er bara áhugavert að Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og fleiri sem hafa staðið í þessu hér á þingi, hafi sofið á verðinum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða grein segir okkur að yfirráðin séu af okkur tekin?

Á Íslandi er framleitt eldsneyti sem flutt er til EES-landa, t.d. frá fyrirtækinu Carbon Recycling International, þannig að ég tel að opnun innri markaðarins sem tryggir okkur aðgang að innri markaði skipti máli.

Hvað finnst hv. þingmanni um að þetta virki í báðar áttir? Fyrirtæki eins og Marel, Skaginn 3X, Valka, Vélfag og fleiri eiga mikið undir því að orkumál séu hluti af EES-samningnum. Eigum við að stoppa þegar okkur (Forseti hringir.) hentar að mati hv. þingmanns? Og hvenær þá? Hvar er valdaframsalið? Í hvaða grein? Ég myndi vilja heyra það hjá hv. þingmanni.