149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að taka málið hér til fyrri umr. og við eigum eftir að fjalla um það í nefndum þingsins. Þar gefst vonandi tækifæri til þess að fara yfir öll þau lögfræðiálit sem liggja fyrir í málinu og allar þær álitsgerðir sem fram hafa komið. Þær eru fleiri en nefndar hafa verið í ræðum. Og ég er sannfærður um að ef fólk fer yfir þessar álitsgerðir og leggur síðan sitt sjálfstæða mat á þær, eins og fólk á að gera, þá séu þær áhyggjur sem hv. þm. Una María Óskarsdóttir lýsti í sinni ræðu algerlega ástæðulausar. Ég held að við eigum að skoða þetta heildstætt. Ég held að við eigum að fá þessa ágætu fræðimenn til okkar á fund og ræða við þá þannig að það sé ekki bara verið að taka einstök orð eða einstakar setningar og slíta úr samhengi, heldur ræða við þá heildstætt um þessi mál. Ég er alveg sannfærður um að áhyggjur hennar af þessu víðtæka framsali á auðlind Íslands á orkusviðinu koma til með að reynast á misskilningi byggðar.