149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:05]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Frú forseti. Við ræðum háalvarlegt mál sem snýst m.a. um yfirráð yfir auðlindum okkar. Það er því miður margt sem bendir til þess að með ályktun utanríkisráðherra séum við að afsala okkur valdi yfir því hvernig málefnum helstu auðlinda okkar er háttað. Það er ekki annað að sjá en að þingheimur sé blekktur. Látið er í það skína að eitt helsta lykilgagn við að telja þjóðinni trú um að innleiðing þriðja orkupakkans muni ekki hafa nein neikvæð áhrif hér sé álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, en álitsgerðin fjallar m.a. um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB og EFTA.

Rétt er að hafa staðreyndir á hreinu og ég leyfi mér að vitna beint í texta eins og fleiri hafa gert í dag, með leyfi forseta:

„Fram hefur komið að ekki standi til að innleiða 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 í landsrétt jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng). Að mati höfunda er þó til þess að líta að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr. 713/2009 í landsrétt, með þeim breytingum/aðlögunum sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir jafnframt að taka verður afstöðu til þess nú þegar hvort 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.“

Forseti. Ég ætla að endurtaka síðustu setninguna, með leyfi:

„Þetta þýðir jafnframt að taka verður afstöðu til þess nú þegar hvort 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.“

Frú forseti. Með því að samþykkja þriðja orkupakkann hefur Alþingi viðurkennt valdsvið ACER, Orkustofnunar ESB, og útibús hennar á Íslandi. Báðum ber þeim skylda til að fylgjast með hvort kerfisþróunaráætlun ESB sé fylgt. Ef henni er ekki fylgt skulu þau fara þess á leit við íslensk yfirvöld að henni verði fylgt. Verði íslensk yfirvöld ekki við þeirri málaleitan skal afhenda framkvæmdastjórn skýrslu um það. Framkvæmdastjórnin getur farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn og erum við þar með skuldbundin til að hlíta úrskurði þess dómstóls.

Hér er klárlega um valdaframsal að ræða að mínu mati og ég hef rétt á mínu mati. Ég hef fullan rétt á mínu mati. Það er mér með öllu óskiljanlegt ef samþykkja á eitthvað sem gæti brotið í bága við stjórnarskrána. Ég bendi á að einhliða íslenskar yfirlýsingar hafa ekkert gildi í Evrópurétti. Samkomulag á milli íslenskra ráðherra og framkvæmdastjórnar ESB hefur heldur ekki nokkra réttarlega þýðingu.

Með því að innleiða þriðja orkupakkann í íslensk lög mun Alþingi skuldbinda Íslendinga til að taka þátt í að þróa innri orkumarkað ESB án hindrana, fimmta frelsi ESB. Að neita að samþykkja sæstreng til landsins er sama og að segja að innri markaður eigi ekki að spanna Ísland. Í því felst augljós mótsögn.

Ég bendi á að sameiginlega EES-nefndin veitti Íslandi undanþágu frá því að innleiða löggjöf ESB um jarðgas vegna þess að hér er ekki framleitt jarðgas. Hún gæti með svipuðum rökum veitt Íslandi undanþágu frá löggjöf ESB um sameiginlegan raforkumarkað vegna þess að Ísland er alls ekki tengt þeim markaði. Það er ein af þeim leiðum sem við gætum farið og eytt þar með allri óvissu. En við gætum líka innleitt reglur um skipaskurði og járnbrautir. Við verðum að forðast að lenda í þeirri stöðu að einhver stofnun hafi um það að segja hvernig við högum orkumálum okkar. Orkan og yfirráð yfir henni eru helstu framtíðarauðæfi okkar og það skiptir öllu máli að við séum algerlega óskipt við stjórnvölinn þegar kemur að ákvörðun er slík mál varðar.

Hér er um eitt af fjöreggjum okkar að ræða. Það virðist sem upplegg margra og rökstuðningur fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans sé álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst. Framkvæmdarvaldið virðist telja að hægt sé að tryggja hagsmuni þjóðarinnar við innleiðingu raforkuskipana tengdum þriðja orkupakka og áskilja sér að það sé sérstök ákvörðun Alþingis hvort hér sé komið á tengingum á raforkuflutningi í gegnum sæstreng í kjölfarið.

Ef markmiðið er, sem það ætti að sjálfsögðu að vera, að Alþingi og löggjafarvaldið hafi með það að segja hvort komið verði á tengingu við raforkukerfi annarra landa er það algert lágmark að setja efni tillögunnar í lög og tryggja þannig að báðir aðilar löggjafarvaldsins komi að þeirri ákvörðun. Fyrirvara við reglugerðir eða tilskipanir er ekki hægt að innleiða, það hefur reynslan sýnt okkur. Fyrirvarar hafa ekkert gildi og eru allar líkur á að Ísland sé að baka sér alþjóðlegar skuldbindingar. Allt tal um ótta við evrópska samlíkingu, þjóðrembing eða þaðan af verri málflutningur rökleysunnar er ekki svaravert. Þetta mál er flókið en í sinni einföldustu mynd má segja að það gangi bara út á að standa vörð um hagsmuni komandi kynslóða.

Frú forseti. Okkur sem þingmönnum ber ætíð að virða íslensku stjórnarskrána. Það er rangt að hafni Alþingi þriðja orkubálki ESB muni afleiðingar verða ófyrirsjáanlegar. Hámarksviðbrögð ESB eru niðurnjörvuð í EES-samningi. ESB má óska eftir því í sameiginlegu EES-nefndinni að atriði í orkukafla EES-samningsins verði felld úr gildi. Þar kemur helst til álita annar orkumálabálkur ESB í viðauka IV. Slíkt getur ekki skaðað EFTA-löndin og þau munu áfram halda sínum viðskiptum við ESB-löndin með orku og annað.

Að halda því fram að beiting neitunarvalds Alþingis muni hafa alvarlegar afleiðingar á EES-samstarfið er sama og að segja að staða EFTA-ríkjanna sé sú sama gagnvart stjórnvöldum ESB og ESB-ríkjanna sjálfra, sem jafngildir þá ESB-aðild. Þetta mál gengur lengra en inntak og eðli EES-samningsins.

Það er alveg ljóst að samkvæmt EES-samningnum þurfum við ekki að innleiða allar tilskipanir. Ég nefni í því sambandi 102. gr. samningsins þar sem kemur fram að gert er beinlínis ráð fyrir því að ríkið geti með rökum hafnað innleiðingu einstakra tilskipana. Við Íslendingar höfum ekki sagt nei til þessa.

Svo að ég vitni í það sem hefur komið fram áður í dag, varðandi það hvernig menn eru tilhafðir í klæðaburði, þá eru hér engin axlabönd og beltið er lélegt. Stjórnarskrá Íslands er ekki virt að mínu mati, sem hver og einn sem hér situr skrifaði þó undir heit um að gera.

Frú forseti. Allan vafa ber að túlka stjórnarskránni í hag.