149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:15]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að búið er að vísa í fjölda gagna. Meðal þeirra gagna sem hefur verið vísað í hér í dag eru gögn sem ég get ekki séð betur en að, þrátt fyrir að annað hafi komið fram hér í dag, séu bara alls ekki fylgigögn í málinu. Að frétt á stjornarradid.is þar sem prófessor Stefán Már Stefánsson tjáir sig varðandi þetta mál, eins og hæstv. ráðherra rakti hér áðan, sé hluti af gögnum? Mér sýnist á öllu að þetta sé ekki í fylgiskjölunum. Það að birta eitthvað á netinu er ekki ígildi fylgiskjala.

Ég efast ekkert um að hv. þm. Birgir Ármannsson getur útskýrt það fyrir nýliða eins og mér ef ég er að fara með rangt mál.

Síðan ítreka ég það sem er megininntakið í þessu sem ég flutti hér áðan: Mér finnst lagalegri óvissu ekki hafa verið eytt. Það eru enn lögfróðir menn að deila og eru með efasemdir. Mér finnst þetta mál af þeirri stærðargráðu að mér finnst ekki eðlilegt að það fari í gegnum Alþingi Íslendinga meðan slíkar efasemdir eru enn í gangi.

Ég held að ef þetta er svona ofsalega saklaust eins og menn vilja láta í veðri vaka verði þessi lögfræðiálit miklu einsleitari þegar upp er staðið. Það er klárt mál að á meðan okkar færustu menn eru enn að tjá sig með ólíkum hætti er eitthvað þarna sem við sem Alþingi eigum að skoða betur. Enda liggur varla svona á þessu. Ef þetta er svona sárasaklaust og skiptir engu máli, eins og er nú hluti af málflutningnum, liggur varla á að keyra þetta í gegn.