149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgrími Sigmundssyni fyrir ræðuna. Hann fór víða yfir í ræðu sinni og viðraði áhyggjur sínar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er algerlega í boði að hafa efasemdir um hvert einasta þingmál sem kemur hérna inn. Það er mikilvægt að við sem þing förum vel yfir allar þær röksemdir sem koma fram þar. Ég er algjörlega sammála því.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um álit Stefáns Más Stefánssonar og fleiri. Hann valdi, að mínu mati, úr því áliti það sem honum fannst helst styðja málstað sinn og ég get alveg horft í gegnum fingur mér með það. En við verðum náttúrlega að horfa til þess hvaða niðurstaða liggur síðan fyrir í lok álitsins.

Þingmaðurinn kvartaði líka undan því að í ræðum hér hefðu menn bent á að títtnefndur Stefán Már hefði á einhverju vefsvæði, líklega Stjórnarráðsins, talað mun afdráttarlausar um að þessi lausn myndi duga og kvartaði um að það væri ekki þingskjal, sem er rétt hjá þingmanninum.

En þá vil ég spyrja: Mun hv. þingmaður taka Stefán Má Stefánsson trúanlegan ef hann endurtekur þetta álit sitt á vefsvæðinu fyrir þingnefndinni sem um málið mun fjalla?