149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann heyrði spurningu mína rétt og svaraði henni ágætlega fyrir sitt leyti. Þingmaðurinn sagði einnig að hann ætti erfitt með að tjá sig um það sem gerðist í framtíðinni. En þingmenn Miðflokksins hafi ekki verið í neinum vandræðum með að spá fyrir um hvað muni gerast ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt. Látum það liggja á milli hluta.

Hv. þingmaður talaði m.a. um innleiðingu gerða og að við hefðum á sínum tíma ekki þurft að innleiða gerðir um skipaskurði og járnbrautalagningar og þess háttar. Þingmenn Miðflokksins hafa haft uppi þau orð að við verðum nánast neydd til að leggja sæstreng ef við samþykkjum þessa gerð.

Telur þingmaðurinn að ef við hefðum til að mynda innleitt gerðirnar um skipaskurði og járnbrautir að Evrópusambandið hefði þá neytt okkur til að leggja járnbrautir og skipaskurði á Íslandi?