149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:30]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er í 25 ár aldrei, nei. Það virðist vera að svo eigi bara að verða líka næstu 25 árin, jafnvel þó að ég hafi í máli mínu í dag bent á að nú þegar strax við fyrri umr. hafa þeir sem tala fyrir málinu farið rangt með. Það heitir að fara rangt með þegar skjöl eru kölluð fylgiskjöl sem eru ekki fylgiskjöl. Hlutirnir byrja strax í fyrstu umferð með hnökrum á einhverju sem ég hefði haldið, vegna þess að ég hef ekki mikla reynslu í þessum sal, að væri algjört formsatriði, að menn með áratugareynslu klikkuðu ekkert á svona. Ég kemst að því í fyrstu umferð að meira að segja á þessu klikka menn. Ég ætla hins vegar að bjóða hv. þm. Óla Birni Kárasyni að kalla fram í fyrir mér því ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki nógu vel síðustu spurninguna. (ÓBK: Hvar í orkupakkanum eru kvaðir lagðar á okkur að leggja sæstreng?)

Takk. Það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem felur í sér kvaðir um lagningu sæstrengs. Það er hins vegar alveg ljóst hvaða leiðir er verið að opna og hvert valdið er að færast. Það held ég að allir séu sammála um sem skoða þetta mál. Við sjáum alveg í hvaða átt hlutirnir eru að þróast. Það er verið að byrja að færa valdið frá kjörnum fulltrúum Íslendinga. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég geri fastlega ráð fyrir að hv. þm. Óli Björn Kárason slengi á mig fleiri spurningum.