149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Hvar erum við stödd þegar Sjúkratryggingar Íslands neita að greiða fyrir tannréttingar og meðferð lítils drengs sem fæddist með skarð í vör og klofinn góm, fæðingargalla? Það eru fjögur börn á Íslandi í dag sem þurfa slíka meðferð. Hvernig á maður að geta staðið á hinu háa Alþingi sem hluti af löggjafanum og sagt í alvöru: Það er ekki komið til móts við foreldrana. Þeir þurfa sjálfir að greiða fyrir allt saman vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands neita að borga. Hæstv. heilbrigðisráðherra ætlaði samt með reglugerð í fyrra, a.m.k. virtist það vera hennar góði vilji á þeim tíma, að girða fyrir nákvæmlega þetta.

Ég las þessa grein í Morgunblaðinu í gær og verð að segja að ég er eiginlega algjörlega orðlaus. Í greininni spyr þessi unga móðir níu ára gamall drengs í Vestmannaeyjum: Hvað er í gangi? Hvers lags eiginlega mismunun er þetta? Við getum ekki verið þekkt fyrir slíkt, virðulegi forseti. Getum við í alvöru verið þekkt fyrir að hjálpa ekki litlum börnum sem fæðast með fæðingargalla að eignast eðlilegt líf, að hjálpa þeim ekki með tannréttingar? Ég segi nei.

Virðulegi forseti. Ég skora á okkur öll að koma í veg fyrir svona lagað. Þetta er óréttlæti og það á ekki að líðast í neinu siðmenntuðu samfélagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)