149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Stór skref voru stigin við undirskrift lífskjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um með stuðningi stjórnvalda í síðustu viku. Þessi samningur er ný nálgun á þeirri staðreynd að lífskjör á vinnumarkaði koma við alla þjóðina og því verða stjórnvöld að vera í sama takti svo vel takist til. Aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningi felur í sér fjölmargar leiðir sem slær taktinn með aðildarfélögum vinnumarkaðarins til að viðhalda stöðugleika.

Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir lengingu fæðingarorlofs og loks sjáum við hilla undir þessi markmið. Fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tíu í byrjun ársins 2020 og í byrjun ársins 2021 verður fæðingarorlof komið í tólf mánuði. Áfram verður horft til þess að hvort foreldri fyrir sig eigi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs, en hluti orlofsins verður til skiptanna. Foreldrar lenda í tómarúmi milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og hefur það bæði skapað óvissu og tekjutap fyrir foreldrana. Þarna er líka verið að svara ákalli sveitarfélaga sem hafa haft góðan vilja en stundum ekki getu til að brúa þetta bil. Á næsta ári eiga skerðingarmörk barnabóta einnig að hækka í 325.000 kr.

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni. Að því skal stefnt í þeirri sátt sem undir var ritað. Þetta er í samræmi við niðurstöður starfshóps um peningastefnu landsins þar sem segir að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Þetta ýtir undir stöðugleika á húsnæðismarkaði. Auk þess eru komin ein 13 önnur úrræði í húsnæðismálum til stuðnings kaupendum og leigjendum með sérstakri áherslu á fyrstu kaup.

Sú sátt sem ritað var undir ber merki um vor á vinnumarkaði eftir kvíðvænlegan vetur sem einkenndist af óvissu og svartsýni. En það er öflugri forystusveit félaga á vinnumarkaði og framsýnni ríkisstjórn að þakka að vorið er víst komið á ný.