149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, ágætt að halda því til haga því að oft er verið að vísa til þess að við ættum að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þaðan er nú málið komið eftir samráð við Alþingi.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki langa reynslu hér, kom inn á þing árið 2016 og ég verð að viðurkenna að fyrir þann tíma hafði ég svo sem ekkert velt EES-málum sérstaklega fyrir mér. Ég hygg að svo sé um marga þarna úti. Við áttum okkur ekki alveg á þeim kostum og þeim lífsgæðum sem við fáum í gegnum EES-samninginn, en mér finnst ókostirnir oftar meira ræddir. Ég minnist þess vel áður en ég kom inn á þing að rætt var um Alþingi sem einhvers konar stimpilpúða fyrir einhverjar reglur og löggjöf frá Brussel, bara eins og það flæddi hér yfir Alþingi og Alþingi tæki engan þátt í því annað en að stimpla og koma málum í gegn.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að halda því til haga hvaða samráð hefur verið haft við Alþingi Íslendinga í þessu máli. Það kemur vel fram í greinargerðinni með þessari ágætu þingsályktunartillögu, þar sem segir, með leyfi forseta:

Ítarlega var gerð grein fyrir þriðja orkupakkanum í samráðsferli á grundvelli 2. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Í samráðsferlinu sendi utanríkisráðuneytið meðal annars fjögur minnisblöð til utanríkismálanefndar Alþingis sem vörðuðu málið og eru þau öll með umræddri þingsályktunartillögu. Einnig mættu fulltrúar ráðuneytisins á fundi hjá þingnefndum vegna málsins. Jafnframt voru send minnisblöð frá iðnaðarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til þingnefnda Alþingis.

Utanríkismálanefnd Alþingis lauk umfjöllun sinni með áliti, dags. 20. september 2016, þar sem einnig voru send með álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og atvinnuveganefndar Alþingis. Í áliti utanríkismálanefndar Alþingis kemur fram að „sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi“. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis komst jafnframt að þeirri niðurstöðu í nóvember 2014 að innleiðingin „feli í sér framsal sem sé vel afmarkað, á takmörkuðu sviði og fyrirsjáanlega ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila“. Atvinnuveganefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að þörf væri á aðlögunum áður en gerðirnar yrðu teknar upp í EES-samninginn. Tókst að semja um þær aðlaganir. Þá kemur og fram í álitinu að „svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi haldið ítrustu sjónarmiðum landsins á lofti“.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans var enn fremur kynnt utanríkismálanefnd 5. maí 2017.

Þrátt fyrir allt þetta samráð sem hér var viðhaft og þrátt fyrir álit þessara fagnefnda erum við ekki að fjalla um þetta mál fyrr en núna vegna þess að einhverra hluta vegna voru enn uppi verulegar efasemdir. Færustu sérfræðingar voru fengnir til að fara yfir málið. Þeir lögðu fyrir okkur leið. Það er það sem liggur fyrir okkur núna.

Hvað felst í þessum þriðja orkupakka? Löggjöfin lýtur einkum að neytendasjónarmiðum, umhverfisvernd, hagkvæmni í rekstri orkufyrirtækja, fyrirtækjaaðskilnaði sérleyfis og samkeppnisþátta, jöfnu aðgengi og markaðsbúskap í raforku- og jarðgasviðskiptum og þá fellur einnig undir orkumál, eldsneyti, hiti, raftæki, orkumerkingar o.fl. Við eigum einmitt fyrirtæki sem starfa í þessum geira. Þannig er hægt að færa rök fyrir því að það séu bara töluverðir hagsmunir í því fólgnir að innleiða þriðja orkupakkann.

En vegna sérstöðu Íslands sem einangraðs kerfis hefur samt sem áður stórum hluta af því sem felst í þriðja orkupakkanum verið ýtt til hliðar og á ekki við um Ísland og það sem við erum hér að samþykkja. Ég fagna því í rauninni að svona mikil umræða sé um málið því að að sjálfsögðu eigum við að nota þennan sal og þessa umræðu til þess. Ég verð þó að viðurkenna að mér þykir miður hvað umræðan virðist fara í marga hringi, orð eru bara endurtekin og ég ímynda mér að ef einhver situr heima og fylgist með umræðu þá er ég ekkert viss um að viðkomandi verði miklu fróðari um það sem hér liggur undir. Þess vegna vil ég hvetja þá aðila sem það mögulega gera, að kynna sér málið á heimasíðu Alþingis eða heimasíðu Stjórnarráðsins þar sem öll þessi gögn liggja fyrir, þar sem öllum spurningum sem velt hefur verið upp í þessu máli er svarað skilmerkilega.

Ég viðurkenni að þegar okkur í utanríkismálanefnd var tilkynnt um upptökuna í samninginn hafði ég ekki sérstakar áhyggjur þó að margir aðrir hefðu viðrað sínar áhyggjur. Nú er búið að fara enn betur yfir málið og tryggja enn frekar að þau atriði sem voru helstu áhyggjuefnin eru núna út af borðinu.

Virðulegur forseti. Ég er bjartsýn fyrir þriðja orkupakkann. Ég hef ekki miklar áhyggjur, en mér finnst auðvitað eðlilegt að þeir sem hafa áhyggjur viðri þær hér og við förum svo með málið til nefndar, fáum þá frekari sérfræðiálit og umsagnir og förum betur yfir það. Eins og ég sagði í ræðu áður, ég held að það séu fá mál sem hafi fengið jafn mikla yfirferð, bæði af þingmönnum, núverandi og fyrrverandi, þingnefndum, sérfræðingum og embættismönnum og þetta mál.

Mig langar líka að bæta því við, virðulegur forseti, því að við ræðum um auðlindina okkar, orkuna, að ég skal heils hugar taka undir mikilvægi þess að við stöndum vörð um auðlindirnar okkar. Mig langar líka að benda á að það skyldi þó ekki vera að jafnvel væri enn meiri auðlind fólgin í hugviti okkar Íslendinga um hvernig við nýtum orku, hvernig við mögulega framleiðum orku, endurvinnum orku og stuðlum að orkusparnaði. Ég held því að við þurfum líka að huga að því að horfa svolítið til framtíðar, það sem er að gerast í orkumálum úti í Evrópu og alls staðar í heiminum þar sem nýsköpunarfyrirtæki og rannsóknaraðilar eru að finna ótrúlega flottar leiðir til að spara orku og framleiða vistvæna orku. Ég vil að við Íslendingar verðum í þeim hópi. Við höfum nú þegar töluvert af fyrirtækjum og vísindamönnum sem eru að gera ótrúlega hluti hvað þetta varðar. Ég vil að þeir aðilar hafi fullt aðgengi að rannsóknamiðstöðvum, háskólum og öðru innan Evrópusambandsins. EES-samningurinn er ekki bara grundvöllur undir viðskiptahagsmuni okkar hvað þetta varðar, heldur líka í samstarfi þegar kemur að rannsóknum, nýsköpun og tækniframförum.

Ég viðurkenni líka að ef ég teldi vera einhverja raunverulega hættu hérna á ferð, þá myndi ég ekki hika við að segja nei. Ég sé enga ástæðu til þess því að enn sem komið er hefur engum tekist að sannfæra mig um að hér sé einhver hætta á ferð fyrir okkur Íslendinga. Ég sé enga ástæðu til þess að fara til baka í sameiginlegu EES-nefndina í einhverja vegferð sem við vitum ekkert hver er. Miklu frekar vil ég horfa fram á veginn, samþykkja þriðja orkupakkann og brýna svo utanríkisþjónustuna í hagsmunagæslu okkur til framtíðar. Það er kannski eitt af því sem við ættum miklu frekar að vera að ræða hérna. Hvað er í orkupakka fjögur? Hvað kemur svo? Hvað er næst? Það er það sem er að gerast í Brussel núna. Það eru allir löngu búnir að samþykkja þennan orkupakka þrjú. Við erum allra síðust. Við erum að rífast um eitthvað sem Noregur var að rífast um fyrir meira en ári og þeir gátu leyst þann ágreining með yfirlýsingu. Við göngum enn lengra en þeir með okkar fyrirvara.

Virðulegur forseti. Því segi ég: Ég er bara bjartsýn gagnvart orkupakkanum.