149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir fyrirspurnina. Þó að ég sé nú öflug í Evrópurétti er ég ekki með lögin fyrir framan mig og kann alls ekki utan að þessa 5. gr. sem hv. þingmaður vísar í. En ég get þó alla vega frætt hann um að við höfum sérstöðu af ýmsum toga gagnvart Evrópska efnahagssvæðissamningnum og Evrópusambandinu sem örríki sem ég vísaði til í ræðu minni hér áðan.

Tími minn er náttúrlega ekki það langur að ég geti farið að taka hv. þingmann í kennslustund í Evrópurétti, en mér sýnist honum ekki veita af því. En það sem við erum að vísa til, ítrekað og ævinlega, er nákvæmlega þetta: Við erum með undanþágur sem við höfum fengið. Það eru fordæmi fyrir því að í gegnum sameiginlegu EES-nefndina höfum við farið fram á undanþágur vegna sérstöðu okkar. Þeim hefur venjulega verið vel tekið. Það er t.d. ákveðinn ómöguleiki í því að við færum að smíða hér skipaskurði. Til hvers ættum við að vera að leggja járnbrautarteina? Eða erum við hér með undanþágu líka gagnvart gasi og öðru slíku?

Þessar undanþágur halda allar og hafa tvímælalaust verið látnar ganga rétta leið. Við erum að byrja hér á öfugum enda. Við eigum að byrja á því að sækja um undanþáguna sem við þurfum ekki að undirgangast. En því miður hefur það nú verið okkar tilhneiging að skjóta fyrst og spyrja svo.