149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví fyrir fyrirspurnina. Hann talar um hvað það sé sem við þurfum að fá undanþágu frá, neytendavernd, aðskilnaðinn og allt sem þarna er. Þarna er hann að vísa í orkupakka eitt og tvö. T.d. orkupakki tvö, það er hann sem varð þess valdandi að við þurftum að kljúfa hér frá og koma með Landsnet, þar sem við þurftum í rauninni að aðgreina dreifinguna frá framleiðslunni, þar sem við þurftum án þess að depla auga að sjá á eftir því að nú er þriðja stærsta orkufyrirtæki okkar komið í hendur útlendinga og var að fjárfesta í HS Orku fyrir 37,5 milljarða núna bara rétt á dögunum.

Það sem er lykilatriði í þessu þegar er verið að tala um hvað þriðji orkupakkinn geri er: Þriðji orkupakkinn er að festa okkur nákvæmlega þar. Það er fyrsta skrefið, eða réttara sagt þriðja skrefið, í áttina að því sem heitir að leggja hér sæstreng, þriðja skrefið af fimm.

Pylsan var stór. Það þurfti að sneiða hana niður. Það var ekki hægt að troða henni ofan í okkur í einum bita. Pylsukenningin á vel við hérna. Við tökum einn og einn bita, gleypum þetta allt saman og áður en við vitum er pylsan farin. Þá verður ekki aftur snúið, virðulegi forseti.

Það er lykilatriði í EES-samningnum að öll aðildarríki hafi ótvíræðan og óvefengdan rétt til að hafna löggjöf á tilteknu málefnasviði og um leið, ef svo er, þegar við erum búin að leggja það fyrir sameiginlegu EES-nefndina, sem ég hef enga ástæðu til að ætla að myndi ekki taka málum okkar vel, er eingöngu það sem maður segir: Hvers vegna byrjum við ekki á byrjuninni, virðulegur forseti og hv. þingmaður, og fáum úr því skorið fyrir sameiginlegu EES-nefndinni hvort það sé einhver krafa í sambandi við samninginn okkar sem lýtur að Evrópska efnahagssvæðinu um að við undirgöngumst þennan þriðja orkupakka.