149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég biðst afsökunar á því, það er rétt að ég var ekki nógu skýr hvað lýtur að muninum á þessum aukna aðskilnaði um hvað lýtur að öðrum og þriðja orkupakkanum. Það er nú ekki síst ákveðið áhyggjuefni sem lýtur að því að við eigum jú okkar frábæru orku og Landsvirkjun sem við eigum að stærstum hluta, eins og hv. þingmaður veit.

Þessi þriðji orkupakki kemur til með að valda nákvæmlega því sem við sáum þegar Hagar fór í mál við ríkið á sínum tíma í sambandi við innflutning þar sem við héldum að við værum alveg trygg gagnvart samningi Evrópusambandsins um að við þyrftum ekki að flytja neitt inn. Nú er það nákvæmlega HS Orka sem segir: Heyrðu, Landsvirkjun er allt of stór á markaðnum. Hvenær fáum við það mál í hendurnar? Landsvirkjun er allt of stór. Það er verið að selja þetta frá okkur. Þetta er liður í einkavæðingu á Landsvirkjun. Það á að fara að stúka hana niður. Það á að brytja hana niður, selja frá okkur orkuna hingað og þangað í smáskömmtum. Pylsukenningin er að skila sér alveg 150% hér inn hjá Evrópusinnuðum þingmönnum. Punktur og basta.