149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið. Við virðumst vera að velta vöngum frekar en annað því að ég skildi ekki spurninguna. En mig langar að leiðrétta eitt. Þetta er í annað sinn sem vísað er í þetta svar frá utanríkisráðherra sem er með þessa þingsályktunartillögu á sínum snærum. Það er samflokksmaður hans sem spyr hann og virkar það ekkert rosalega hlutlaust í umræðunni, a.m.k. ekki á mig. Þar kemur fram, ef rétt er haft eftir af hv. þingmanni, að þessar reglur um orkuna og sameiginlegan markað hafi strax komið fram í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 1992. Það er alrangt. Orkan var ekki skilgreind sem vara fyrr en við löggiltum annan orkupakkann, mig minnir að það hafi verið 2007. Það er þá sem við komum inn á þetta fjórfrelsi og með því að ætla að reyna að taka orkuna út úr pakkanum erum við farin að svíkja grundvöll EES-samningsins sem lýtur að fjórfrelsinu, bara svo að það sé rétt sagt.

Það er á hreinu að orkan var ekki skilgreind sem vara fyrr en einum 15 árum eftir að við skrifuðum undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er eins með landbúnaðarafurðirnar og sjávarafurðirnar og annað slíkt — við vorum í góðri trú þegar við gengum inn í þennan samning og skrifuðum undir hann 1992, hann tók gildi 1994. Þá stóðum við í þeirri trú að við værum að fara að skiptast á vörum og fengjum aðgang að þessum risastóra innri markaði sem var og er okkur afskaplega mikilvægur, og skal ekkert lítið úr því gert. En ýmislegt hefur breyst á þessum 25 árum og sér ekki fyrir endann á þeim breytingum enn.