149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er enn jafn ringluð. Ef það kemur virkilega fram í svari hæstv. ráðherra að við höfum verið með orkumálin undir, þegar við skrifuðum undir EES-samninginn árið 1992, ætla ég að leyfa mér að draga svarið í efa, svo að það sé sagt.

Spurt var hvort ég væri tilbúin að segja upp EES-samningnum og svarið er já. Ef þetta hefur í för með sér að við þurfum að selja frá okkur nánast allt sem við eigum hér og skapar okkur sérstöðu sem litlu eyríki í útjaðri Evrópu, þá er svarið já. Mér finnst Svisslendingar flottir. Þeir eru frjálsir. Þeir eru búnir að gera 128 tvíhliða samninga. Þeir eru ekki í neinum vanda.

Ef það á að vera þannig að Evrópusambandið eigi að sjá um okkar mál áður en við göngum í það og við séum hreinlega að reyna að stíga skrefið þangað til fulls þá eigum við bara að ganga hreint til verks. Við eigum að leggja það fram fyrir þjóðina, því það er þjóðin sem á skilið að fá þjóðaratkvæðagreiðslu í risamáli af þessu tagi. Við eigum bara að leggja það fram. Viljum við ganga í Evrópusambandið eða ekki?