149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að tala um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn eða svokallaðan þriðja orkupakka. Það eru 25 ár liðin frá því að við gerðumst aðilar að EES-samningnum og samstarfinu. Það var því fyrir 25 árum sem við skilgreindum raforku sem vöru. Orka hefur verið ein af mikilvægustu forsendum efnahagslegra framfara hér á landi og hefur svo verið frá öndverðri 19. öld. Því er ekkert skrýtið að tilfinningaleg umræða fari af stað. Við búum jú við auðlindadrifið hagkerfi.

Norðmenn afgreiddu þriðja orkupakkann á síðasta ári. Nokkrir þingflokkar á norska Stórþinginu setja fram skilyrði og má þar lesa út þeirra sameiginlegu sýn á hvað orkan og orkuauðlindir eru fyrir þeim sem þjóð. Sú sýn sem birtist í þeim punktum er áhersla sem snýr að því að vatnsorkuauðlindir Noregs verða áfram á forræði og undir stjórn landsins og samfélagsins. Þeir búa við endurnýjanlega orkuframleiðslu sem á að stuðla að verðmætasköpun og stuðla að orkuskiptum í landinu. Norðmenn undirstrika það í áherslum sínum að norsk stjórnvöld skuli hafa fullt forræði yfir öllum ákvörðunum varðandi orkuöryggi Noregs og að allar tengingar yfir landamæri verði alfarið að vera á forræði ríkisins og í eigu norskra aðila. Þeir leggja einnig áherslu á að efla eftirlit og að það verði framkvæmt heima fyrir og í verði höndum orkustofnunar þeirra og munu verkefni hennar takmarkast við að uppfylla lágmarkskröfur tilskipunar þriðja orkupakkans.

Við getum tekið undir þær áherslur Norðmanna og líklega er svo um flesta Íslendinga. Samt eru Norðmenn tengdir raforkustreng yfir landamærin þannig að þeir hafa þessa sýn og kannski horfa þeir til einhvers konar þjóðarsáttar.

Virðulegi forseti. Nú fer þessi þingsályktunartillaga til meðferðar í þinginu. Sú vinna sem hefur farið fram við undirbúning hennar hefur haft það að markmiði að við nálgumst svipuð sjónarmið og Norðmenn hafa í málinu. Þingið mun taka við þeim kaleik og mun málið fara til meðferðar utanríkismálanefndar. Nefndin verður að tryggja að við séum ekki að framselja auðlindir okkar né vald. Á því getur ekki verið vafi og á ekki að vera vafi.

Okkar helsti sérfræðingur í þeim málum, Stefán Már Stefánsson, sem mikið er vitnað til í þessum sal, hefur staðfest að sú útfærsla sem birtist í tillögunni muni tryggja okkur fullt forræði yfir auðlindum okkar og stjórnskipan. Hún byggir á þeirri staðreynd að þau grunnvirki eru ekki til staðar sem þarf til að verða hluti af sameiginlegum orkumarkaði í Evrópu, þ.e. sæstrengurinn. Þangað til — og ég endurtek þangað til — erum við í sömu stöðu og við erum í núna.

Samhliða þessari þingsályktunartillögu kemur þingsályktunartillaga frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem verður rædd í kvöld, sem snýr að því að tryggt verði að ekki komi til tengingar raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands nema með breytingu á stefnu sem stjórnvöld setja í það skipti, þannig að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema með samþykki Alþingis. Þetta er ósköp skýrt. Meðan við tengjumst ekki þá gerist ekkert. Má því segja að við séum ótengd þriðja orkupakkanum. Þegar það gerist að sæstrengur verði lagður verðum við, eða þau sem á eftir okkur koma, að taka þá umræðu upp og leggja línurnar og stefnuna.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað úr tveimur áttum. Mikill hræðsluáróður heyrist af háaloftinu og móti eru nær fagnaðaróp úr þingflokkum kjallarans. Gott er að vera á miðhæðinni og hafa tekið þátt í samtali um orkupakkann og leitað leiða til samvinnu og sátta án þess að setja sjálfstæði okkar í hættu. Ég undirstrika aftur að hér kemst málið til meðferðar þingsins og því hafa þingmenn tækifæri að fara vel yfir málið.

Það er sérstakt að heyra margar rangfærslur um málið sem eiga sér enga stoð í framlagðri tillögu og eru sendar úr þessum stól út í þjóðfélagið til að gera málið enn tortryggilegra. Fyrir þá sem þekkja málið ekki vel eða hafa ekki lesið sér til eru þetta setningar sem auðvelt er að grípa og hafa eftir.

Ég vil nefna nokkra punkta: Raforka hækkar til garðyrkjubænda, niðurgreiðslum lýkur, hvatningar til lagningar sæstrengs, yfirráð yfir auðlindum okkar. Okkar daglega brauð með osti og smjöri hækkar verulega vegna hækkunar raforkuverðs. Eftirlitið færist til ESA.

Ég hef hvergi fundið staf fyrir þeim punktum sem sumir hv. þingmenn leggja á borð fyrir okkur og þjóðina. Ég vara við slíku og þetta er ekki leið til að ná samkomulagi og niðurstöðu heldur hvetur einungis til uppþots og ringulreiðar. Við erum svolítið eins og krakkar hér í þingsalnum sem sitja í kringum jólatréð á Þorláksmessu og reynum að giska á hvað er í pakkanum. Skyldi það vera jólahjól?

Virðulegi forseti. Við ættum að reyna að einbeita okkur að því að leita sátta og leiða okkur í átt að samtali til að ná samstöðu meðal okkar og þjóðarinnar allrar við EES og þennan samning en ekki gera hann tortryggilegan. Ekki standa á götuhornum og hrópa og draga upp skakka mynd í því sambandi. Það leiðir ekki að niðurstöðu.

Talandi um hvata til að leggja sæstreng þá kostar hann ansi mikið. Fyrir utan að ef hann yrði lagður yrði t.d. raforkutap. Flutningstapið er töluvert, eins og hefur komið fram, auk þess sem hér er ekki til svo mikil raforka til að flytja úr landi. Ég held við ættum að taka þær staðreyndir upp. Svo er spurning þegar tækninni fleygir fram hvort verður á undan, hvort raforkuframleiðsla erlendis verði á þeim basis að tæknilega séð verði hægt að nýta sjávarfallaorku eða sólarorku og af hverju ættu þá aðrar þjóðir að leita til okkar eða við til þeirra? Ég veit það ekki. Við skulum varast upphrópanir og ræða þetta af skynsemi.