149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:31]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get fullvissað hann um að Framsóknarflokkurinn stendur við sitt(BirgÞ: Það er gott að heyra.) vegna þess að við erum ekki í neinu að afsala okkur fullveldi eða yfirráðum yfir orkuauðlindum okkar með þessum pakka. Það gerist ekki nema sæstrengurinn verði lagður.

Eftirlitið er alls ekki á höndum ESA heldur er það hér, það hefur ekki nokkur yfirráð yfir okkur. Það er algerlega á valdi íslenska ríkisins að taka ákvörðun um hvort raforkustrengur verður lagður. Ég get fullvissað þingmanninn, sem hefur miklar áhyggjur af sínum fyrri flokki, að við séum að ganga á bak orða okkar eða ákvörðunum, að með þessu erum við að gangast við orðum okkar, undanþágur hafa verið fengnar í þessum samningi og það er það sem skiptir máli.