149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:34]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst að hið rétta sé að í fjarveru utanríkisráðherra Noregs svaraði heilbrigðisráðherra fyrirspurn í vikulegum fyrirspurnatíma á þinginu um hvort Noregur þyrfti að endurskoða innleiðingu þriðja orkupakkans vegna sameiginlegrar yfirlýsingar Íslands og framkvæmdastjórnar orkumála. Norski ráðherrann svaraði því að ekkert í yfirlýsingunni gæfi tilefni til endurskoðunar. Hann tók jafnframt fram að yfirlýsingunni fælust ekki undanþágur fyrir Ísland frá ákvæðum þriðja orkupakkans.

Ég get ekki skilið að þetta sé einhver staðfesting á því að undanþágur okkar séu ekki í gildi. Ég tel að þær eigi alveg að geta staðið og það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að þetta á að ganga eftir, enda tengir ekkert okkur þessari tilskipun fyrr en við erum tengd þessum markaði.