149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:17]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bregðast við ræðu hv. þm. Páls Magnússonar og segi honum að ekki er öllum efasemdaatriðum svarað í þessu máli, það hefur komið fram. Og það að tala um að við Miðflokksmenn séum á einhverjum sérstökum blaðsíðum er bara alls ekki rétt, þú þarft bara að lesa allt álitið og þá kemur hið rétta í ljós.

Ég vil bera fram eina efasemdaspurningu og spurning hvort þú getir svarað henni, hv. þm. Páll Magnússon. Það hefur ekki komið fram að með þessum fyrirvara, eins og þú bendir á, gerist ekkert neikvætt varðandi íslenska orku. En þá vil ég benda á að það er vel hugsanlegt að ESA höfði samningsbrotamál gegn Íslandi þar sem tilskipunin er ekki réttilega staðfest vegna fyrirvaranna. Hvernig ætlarðu að svara því? Það er bara ósköp einfalt að þessar gerðir eru þesslegar og lögspekinga greinir á um það hvort um framsal valdheimilda sé að ræða. Og þegar við sjáum að fólk er ekki sammála um það hljótum við að vilja skoða það mál betur.

Það sem ég nefndi, með hugsanlega málshöfðun ESA vegna þess að ekki er réttilega staðið að vegna fyrirvaranna, er hlutur sem við getum ekki svarað hér í dag, ég veit það, en þingmaðurinn getur kannski svarað því eða fjallað nánar um þetta. Við Miðflokksmenn erum að tala hér af fyllstu heilindum, erum ekki með eitthvert lýðskrum eða þvælu. Það er mikill misskilningur. Ég frábið mér slíkan málflutning.