149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:27]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég var að velta því fyrir mér þegar hann hóf ræðu sína áðan hvernig Stefáni Má skyldi líða heima hjá sér. Hann hefur í tvo daga eða svo hlustað á okkur fimbulfamba um það, hver um annan þveran, hvað hann sagði, hvað hann sagði ekki, á hvaða blaðsíðu hann sagði það og á hvaða blaðsíðu hann sagði það ekki, sagði hann það eftir að þingmálið lá fyrir eða áður en þingmálið lá fyrir? Hann skemmtir sér ábyggilega stórkostlega.

Ég ætla þá að vitna til hans bara einu sinni enn til að svara eða — mig brestur eiginlega vit og sjálfstraust til að svara spurningunni upp á eigin spýtur sem hv. þingmaður spurði áðan, hvort ég teldi þessi tilteknu atriði væru ekki fyrirséð gagnvart stjórnarskránni. Ég vísa enn í Stefán Má Stefánsson. Og varðandi, við skulum segja þau lagatæknilegu atriði, þá tel ég enga betri stoð að finna í þessu máli öllu að því marki sem það snýr að stjórnarskránni og hugsanlegu valdframsali, eins og fólst í spurningunni, en að vísa nákvæmlega til þess sem hann sagði. Það er rétt að þessu stjórnskipulega álitamáli eða ágreiningi er í sjálfu sér er frestað og kemur ekki til álita fyrr en ef og þegar við hyggjumst tengjast raforkumarkaði Evrópu með streng. Og þá kemur álitamálið aftur upp. Þá munum við deila hér aftur. Þá munum við aftur halda áfram að tala um það sem Stefán sagði eða sagði ekki.