149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, þriðja orkupakkann, um að fella inn í samninginn tilteknar gerðir, eins og greinir frá í þingsályktunartillögunni sjálfri, alls átta gerðir, og er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar um, sem var tekin í maí 2017. Hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir málinu í gær og gerði það vel og vandlega og fór yfir mörg þau atriði sem hafa vakið upp spurningar og valdið ugg hjá mörgum og komið fram í umræðunni. Ég vil ítreka þegar í upphafi ræðu minnar að ég tel það fullkomlega eðlilegt í fyrri umr. um jafn stórt mál.

Umræðan hefur um margt verið ágæt, eins og hægt var að búast við í fyrri umr. Að því leytinu er allt eins og það á að vera, finnst mér, öllum spurningum um málið velt upp þannig að hv. utanríkismálanefnd, sem fær málið sem við ræðum til sín, og hv. atvinnuveganefnd, sem fær þau mál sem við ræðum síðar, geti tekið umræðuna með sér í umfjöllun um málið. Það er mikilvægt.

Þetta mál er af þeim toga að margar spurningar vakna og ekki síst þar sem það hefur verið mikið til umræðu og í dágóðan tíma, verið hartnær áratug í kynningarferli, m.a. fyrir nefndum þingsins um stjórnskipuleg álitamál. Frá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur málið verið hjá hæstv. ríkisstjórn í undirbúningi, í utanríkisráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu, varðandi þau mál og tengd mál og svo sífellt meira í því ferli öllu í umræðu í samfélaginu og á vettvangi fjölmiðla.

Það má spyrja sig af hverju við erum að innleiða þessa löggjöf. Orkumál og regluverk um orkuviðskipti hafa verið hluti af EES-samningnum frá upphafi, frá gildistöku samningsins 1994, þar sem orka er skilgreind sem vara og fellur þannig undir fjórfrelsið. Mörg fyrirtæki starfa í því umhverfi sem við getum kallað IV. viðaukann. Fyrirtæki okkar búa þannig við sama umhverfi og önnur fyrirtæki á þeim markaði. Ég tel það mikilvægt þar sem fyrirtæki okkar njóta fremur góðs af því.

Svo snýr löggjöfin að neytendasjónarmiðum, umhverfisvernd og bættu samkeppnisumhverfi. Það má halda lengra með umræðu um mál því tengdu; nýsköpun á því sviði um orkuvænar lausnir o.s.frv.

Ísland hefur til að mynda talsverða útflutningshagsmuni á sviði orkumála þegar kemur að íslenskum fyrirtækjum í útflutningi, í umræðunni hafa verið nefnd fyrirtæki eins og Marel, Skaginn 3X og Valka. Við flytjum m.a. út eldsneyti til Hollands. Iðnfyrirtæki framleiða raftæki og selja á markaði í Evrópu á grundvelli laga um orkumerkingar á visthönnun vöru sem fellur undir EES-samninginn.

Hér er því um víðtæka hagsmuni að ræða, eins og þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlastarfi á sviði íslenskra grænna orkulausna og mögulegum útflutningi þeirra á markaði í Evrópu. Ég hygg að í framtíðinni muni reyna enn frekar á að við höfum aðgang að innri markaðnum þegar kemur að þeim þáttum.

Hv. utanríkismálanefnd, með fulltingi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fer væntanlega mjög vel yfir þau stjórnskipulegu álitaefni sem hafa verið mikið til umræðu, enda snýr málið mjög að þeim þætti. Það er sannarlega mikilvægt að við förum vel yfir þau mál í nefndum.

Þá felur þriðji orkupakkinn, eins og hinir tveir fyrri, í sér ákvæði um rétt neytenda og neytendavernd, aðgang að flutnings- og dreifikerfum rafmagns, gagnsæi á markaði, aðskilnað samkeppnisrekstrar og fleira í þá veru. En það eru mál sem við ræðum síðar, um aukið sjálfstæði og auknar heimildir Orkustofnunar til eftirlits.

Í því máli sem við ræðum, heimild Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, hafa hin stjórnskipulegu álitaefni tengd framsali ríkisvalds eðli máls verið mest rædd gagnvart stjórnarskránni og hvort það stangist á við stjórnarskrá og hvort farið sé út fyrir tveggja stoða kerfið með innleiðingu. Lengi vel í kynningarferlinu sneri umræðan í þinginu og fyrir nefndum mikið um tveggja stoða lausnina, eins og gjarnan er með mál af slíkum toga.

Umdeildasti þáttur málsins snýr að samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER, sem hefur það hlutverk að skera úr ágreiningi, ef upp kemur, á milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda, er varðar grunnvirki sem ná yfir landamæri og viðskipti um orku þar á milli.

Hér liggja fyrir álitsgerðir lögfróðra sérfræðinga og mikið hefur verið vitnað til þeirra í umræðunni. Það er eðlilegt og nauðsynlegt fyrir okkur í þessari umfjöllun að hafa slíkar álitsgerðir og er í raun um leið dæmi um að verið sé að vanda til verka eins og vera ber og leitað m.a. í smiðju þeirra sem gerst þekkja til á því sviði stjórnskipunar. Þannig leitaði utanríkisráðuneytið til fjögurra íslenskra fræðimanna um álit á stjórnskipulegum álitaefnum sem kynnu að vera á málinu við innleiðingu og upptöku þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Þá leitaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til tveggja lögmanna og eru álit allra og minnisblöð þessa efnis reifuð í greinargerð þingsályktunartillögunnar og vísað til sem fylgiskjala.

Stutta sagan er þessi: Að áliti flestra þeirra er innleiðing ákvæða þriðja orkupakkans í íslenskan rétt í samræmi við stjórnarskrá og samræmist íslenskum stjórnlögum.

Í niðurstöðu Skúla Magnússonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, segir að framsal valdheimilda með innleiðingu ákvæða þriðja orkupakkans, eins og framkvæmdin hefur verið löguð að EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, myndi samræmast íslenskum stjórnlögum.

Dr. Davíð Þór Björgvinsson útbjó minnisblað um málið og er niðurstaða hans sú að mögulegum vafa um framsal valdheimilda hafi verið rutt úr vegi með aðlögun að tveggja stoða kerfi EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar um.

Þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur unnu álitsgerð sem mikið hefur verið vísað til af hálfu þeirra sem hafa haft uppi varnaðarorð í umræðunni. Það er eðlilegt vegna þess að þeir ganga lengst í því að hafa uppi vafa og varnaðarorð um að þetta standist stjórnarskrá og um afléttingu fyrirvara. Fræðimennirnir rekja mjög vandlega í álitinu að að óbreyttu, eins og málið kom frá sameiginlegu EES-nefndinni og var lagt til grundvallar, um valdframsal til ESA samkvæmt þriðja orkupakkanum, m.a. samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, sem lýtur að samstarfsstofnuninni ACER, séu ekki forsendur til að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara.

En þeir leggja jafnframt til lausnir. Þeir leggja til tvær leiðir. Önnur þeirra er farin hér og er það annað dæmi um vandaðan undirbúning að hæstv. ráðherra hafi kosið að leita allra leiða og fara þá leið sem lögð var til. Hin leiðin hlýtur þá eðli máls að vera torsóttari og þyngri.

Virðulegi forseti. Það er verkefni nefndarinnar að fara mjög gaumgæfilega yfir þær leiðir sem eru reifaðar og fara vandlega yfir hvort þessi leið stenst og hvort hin leiðin sé mögulega fær.