149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:49]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir hans ágætu yfirferð. Ég vil þó spyrja þingmanninn út í frétt af mbl.is í dag fyrst að þingheimur er farinn að vitna í netið, með leyfi forseta:

„Verði þingsályktunartillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um þriðja orkupakka ESB samþykkt á Alþingi og hljóti frekara brautargengi á þinginu munu félagasamtökin Orkan okkar skoða þann möguleika að safna undirskriftum og skora á forseta Íslands að beita neitunarvaldi gegn þeim frumvörpum sem tengjast orkupakkanum.“

Þetta segir Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og einn helsti hugmyndafræðingur flokksins. Ég nefni hér einnig ummæli Kristins Dags Gissurarsonar, áhrifamanns innan Framsóknarflokksins, sem sett voru fram á netinu, með leyfi forseta:

„Látum ekki leiða okkur fram af bjargbrúninni. Hugsum til framtíðar fyrir komandi kynslóðir.“