149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki endilega viss um að spurningar hafi endilega fylgt. En vissulega vitnaði hv. þingmaður til mætra manna sem ég hef átt fjölmörg samtöl við og veit skoðun þeirra.

Ég hef enga aðra kosti hér en að fjalla um það þingmál sem er á dagskrá, sem snýr mestmegnis að álitaefnum varðandi íslenska stjórnarskrá. Ég er bara staddur þar. Ég virði alltaf skoðanir annarra, ég tala nú ekki um þeirra mætu manna sem hv. þingmaður vitnaði til, af því að hér er lögð til ákveðin lausn sem halda á og í raun og veru hefur fyrri umr. ekki sannfært mig um að þessi leið sé ekki fær. Ég held að hv. nefnd muni fara mjög vandlega og gaumgæfilega yfir það.

Við erum mjög dugleg við að vitna til orða þeirra sem standa á bak við þá lausn sem hæstv. utanríkisráðherra velur í þessu máli þegar hann kemur málið inn til þingsins, þ.e. lausn sem fræðimennirnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst leggja til í álitsgerð sinni, aðra þeirra. Um leið og við lesum fréttir af því í Morgunblaðinu í dag að samtök á borð við Orkuna okkar ætli að fara þessa leið eða beita neitunarvaldinu eða þrýsta á um það, segir Stefán Már þegar hann er spurður að því hvort þetta standist ákvæði stjórnarskrár, með leyfi forseta: „Við teljum það af því að þetta er innleitt en lögin komi ekki til framkvæmda fyrr en tekin verður ákvörðun um að leggja sæstreng.“ (Forseti hringir.)

Við erum í rauninni að fresta ákvarðanatökunni, og þar með talið því sem lýtur að stjórnarskránni.