149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:53]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek þessari ábendingu hans. Það skorti þó beina spurningu í ræðuna. Ég bæti þá bara úr því.

Ég vitna í ályktanir stjórnmálaflokka. Það er eðlilegt að þetta veki forvitni í ljósi þess hvernig málið er að þróast. Með leyfi forseta, segir í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins:

„Framsóknarflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Þetta er ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í febrúar 2018. Mér finnst eðlilegt að þingmenn séu forvitnir þegar hlutirnir æxlast með þessum hætti. Og í ljósi þeirra ummæla sem ég vitnaði í í fyrra andsvari velti ég líka fyrir mér þeirri einu könnun sem ég hef séð um fylgi þjóðarinnar við þriðja orkupakkann. Þar kemur fram að hvorki meira né minna en 88,5% Framsóknarmanna eru andvígir málinu. Þó að þetta sé ekki beint um pakkann er eðlilegt að það veki forvitni. Þess vegna spyr ég hv. þingmann, og bæti úr þeirri athugasemd sem ég fékk í fyrra svari: Talar forysta Framsóknarflokksins ekki fyrir vilja síns fólks?