149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hann spyr hreint út hvort þingmenn Framsóknarflokksins tali ekki fyrir vilja síns fólks. Ég þekki þessa flokksályktun frá miðstjórnarfundi sl. haust. Vilji okkar flokks? Jú, ég met það svo að við séum samherjar. Ég hef ekki aðra kosti sem þingmaður en að fylgja minni sannfæringu og fara í þaula í málin sem við fjöllum um hverju sinni. Nú erum við að ræða þessa þingsályktunartillögu sem fjallar um þetta afmarkaða mál og við reynum hér, þingmenn Framsóknarflokksins að vanda okkur við það. Hér er fjallað um hvort sú heimild sem farið er fram á varðandi þriðja orkupakkann standist stjórnarskrá. Ég einbeiti mér að því að skoða álit þessara fræðimanna, lesa öll gögn um málið og svara því hvort svo sé eða ekki. Ég treysti á í áframhaldandi vinnu að hv. utanríkismálanefnd fari eftir fyrri umr. með allar þær spurningar sem velt hefur verið upp og fari í þaula yfir það. En að öðru leyti vinnum við samkvæmt ályktunum okkar og gerum það í góðri trú.