149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:56]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017. Gríðarlega mikil vinna er að baki eins og komið hefur fram í dag. Hæstv. utanríkisráðherra flutti hér ræðu og gerði tillögunni greinargóð skil fyrr í dag. Margir hafa tjáð sig og ég tel umræðuna hafa verið af hinu góða. Það er eðlilegt í ljósi þess þegar fjallað er um svona veigamikið mál að umræðan teygi sig eitthvað fram á kvöldið. Það eru skiptar skoðanir og það tel ég algerlega eðlilegt. Þar sem menn hafa í dag vitnað til fræðimanna fram og til baka þá ætla ég að láta það vera í þessari ræðu, ég ætla frekar að reyna að setja mig í spor þeirra sem standa fyrir utan þinghúsið, almennings sem er heima, ef má orða það þannig.

Ég skil vel að almenningur sé verulega tvístígandi, jafnvel á móti eins og fram hefur komið samkvæmt einhverjum skoðanakönnunum. Það er þá okkar hlutverk sem í þessu húsi erum að fræða almenning um það hvernig þessum málum er háttað. Það er lykilatriðið. Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef verið stiklandi til og frá í því hvert skal fara og þessi umræða í dag hefur hjálpað til. Vissulega ræða menn sig til niðurstöðu þegar mál koma til þinglegrar meðferðar og við verðum að hafa það á hreinu að við þurfum að hafa traust. Það er traust borið til þingsins til að fjalla um svona mál sem er mjög mikilvægt. Almenningur þarf að öðlast traust á því sem við erum að gera. Ég ber mikið traust til þessarar stofnunar. Ég treysti henni fyllilega til þess að taka rétta ákvörðun í þessu máli. Það er alveg ljóst. Ég ber einnig mikið traust til þeirra sem koma til með að fjalla um þetta mál í nefnd og velta við öllum steinum og komast að þeirri niðurstöðu, vonandi, að við séum á réttri leið.

Ég er enginn fræðimaður en ég tek yfirleitt mark á þeim sem vita meira en ég. Ég verð að fá að segja það í þessum ræðustól að stundum hafa menn kannski aðeins farið fram úr sér í því að túlka það sem aðrir hafa sagt og ef menn hafa ekki verið á eitt sáttir um það hvað stendur í þeim texta sem þeir lesa. En það liggur gríðarleg vinna á bak við þetta til fjölda ára, talað hefur verið um hátt í tíu ár. Við verðum að taka mark á því þegar svona lagað er lagt fram. Og ég trúi því aldrei að þeir sem leggja svona mikla vinnu í þetta séu bara að gera, eins og maður segir, grín að fólki. Og við verðum líka að taka menn trúanlega þegar þeir segja á hvaða leið við erum, við erum ekki að afsala okkur fullveldi, við erum ekki að segja bless við orkuauðlindir okkar o.s.frv. Það er lykilatriði.

Við erum að fjalla um fjöregg þjóðarinnar, eitt af aðalfjöreggjum þjóðarinnar, og þá er bara mjög eðlilegt að almenningur sé óstyrkur yfir því. Það er kannski líka eðlilegt þegar við sjáum umræðuna sem er uppi, svokallaða nei-umræðu. Hún er alls staðar. Við þurfum þá líka að koma réttu skilaboðunum á framfæri til almennings um hvað þetta innifelur.

Það er komið inn á fjöldann allan af fyrirvörum í þessu áliti. Eins og ég hef skilið umræðuna þá á þetta allt að vera í lagi hjá okkur hvað þetta varðar. Það gerist í sjálfu sér ekkert fyrr en sæstrengur verður lagður og þá verður það þingið sem kemur til með að taka ákvörðun um það.

Það er einnig fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig hlutirnir eru í Noregi og hvernig Norðmenn líta á sína hluti. Vissulega eru þeir tengdir, en það er alveg skýrt hjá þeim að þeir eru með yfirráð yfir sínum orkuauðlindum. Þeir ráða því einnig hvort lagður sé strengur til þeirra eða frá þeim. Það er mjög stórt atriði.

Að svo stöddu ætla ég ekki að lengja mál mitt frekar heldur bara að undirstrika þetta: Berum traust til þeirrar vinnu sem er unnin hér á hinu háa Alþingi. Berum traust til þeirra sem starfa í hv. utanríkismálanefnd og að það leiði okkur til farsællar niðurstöðu í þessu máli. Það er mjög mikilvægt. Og í framhaldi af því þá trúi ég að almenningur verði með okkur í þessu verkefni, hvert sem við erum að fara. Það hefur svolítið verið gengið á okkur Framsóknarmenn um að við séum ekki að fylgja því sem stendur í flokkstillögum o.s.frv., en þá vil ég taka undir orð hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, Willums Þórs Þórssonar, að við vinnum eftir okkar bestu sannfæringu. Okkur er treyst til þess og það á við um alla þingmenn í þessu húsi að við ætlum ekki að gera neitt sem skaðar okkar þjóð.