149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:15]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég verð að spyrja eftirfarandi spurninga sem þingmaður:

Er búið að taka afstöðu til stjórnskipulegra álitaefna er tengjast orkupakka þrjú? Ég endurtek: áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann?

Í ljósi eðlis og áhrifa á ákvarðanir ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 og þess að þær sæta sem slíkar ekki endurskoðun íslenskra dómstóla má telja að gera verði strangar kröfur til þess að valdframsalið standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir sem raktar eru hér.

Með hliðsjón af framansögðu er torvelt að líta svo á að framsal ríkisvalds samkvæmt 8. gr. reglugerðar 713/2009 sé vel afmarkað og skilgreint. Virðist fremur vera litið svo á að valdheimildir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar yrði óljósar og háðar túlkunum á þeim hugtökum sem aðframan greinir. Ekki er með góðu móti unnt að átta sig á því hvernig ESA muni skýra valdheimildir sínar samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar en væntanlega mun túlkun ACER á sannfærandi valdheimildum þeirrar stofnunar og gagnvart ESB-ríkjum hafa þar afgerandi áhrif ásamt fyrrgreindum viðmiðunarreglan framkvæmdastjórnar ESB. Í það minnsta verður ekki litið svo á að afmörkun og skilgreining valdframsals til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar uppfylli þær ríku kröfur sem gerðar eru til valdframsals af þeim toga sem hér um ræðir. Í því sambandi er einkum til þess að líta að ákvarðanir ESA á grundvelli 8. gr. beinast ekki einungis að hérlendum eftirlitsyfirvöldum heldur varða þær í raun beint og óbeint mikilvæga hagsmuni einstaklinga og lögaðila og einnig ríka almannahagsmuni tengda raforkukerfi og nýtingu þess, eins og fyrr segir.

Þá verður að hafa í huga þau miklu áhrif sem ACER hefur á ákvarðanatöku ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar, samanber umfjöllun í framangreindum köflum. Slíkt fyrirkomulag fellur jafnframt illa að tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

Ég endurtek, með leyfi forseta: Slíkt fyrirkomulag fellur jafnframt illa að tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sem er meðal þeirra viðmiðunaratriða sem litið er til við mat á því hvort framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana rúmist innan stjórnarskrárinnar.