149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum enn að ræða um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, þriðji orkupakkinn. Ég flutti ræðu í dag og eyddi lunganum af ræðutímanum í að tala um ramma þingsályktunartillagna. Þær eru sem sagt skörinni lægri í skalanum miðað við frumvörp og þar kemur ekki til ákvörðunar eða aðkomu forseta Íslands enda fjallar þingsályktunartillaga um léttvægari hluti eða er ekki af sama meiði og frumvörp. Ég var að fjalla um að ég áttaði mig ekki á því af hverju þessi leið væri farin.

Hæstv. forseti. Þessar umræður eru búnir að taka langan tíma. Um huga mér hefur margt farið og á ég stundum erfitt með að skilja æsing margra og mikla áherslu á að koma þessari þingsályktunartillögu í gegn með, hvað á maður að segja, frekar miklum æsingi. Ég bendi á að innleiðing orkupakkans er mjög umdeild og sennilega er stór hluti þjóðarinnar andsnúinn innleiðingunni.

Enn einu sinni vil ég vitna í tillögur annarra en títtnefnds Stefáns Más Stefánssonar. Hann lagði sjálfur til aðra og betri leið. Sú var að hafna orkupakkanum og taka viðræður um undanþágur í sameiginlegu EES-nefndinni, undanþágur sem þar halda. Þessari tillögu eru þingmenn ekki að flíka og spyr ég hvers vegna. Sameiginlega EES-nefndin veitti Íslandi undanþágu frá því að innleiða löggjöf ESB um jarðgas vegna þess að hér er ekki framleitt jarðgas. Hún gæti sömuleiðis veitt Íslandi undanþágu frá löggjöf ESB um sameiginlega raforkumarkaðinn vegna þess að Ísland er alls ekki tengt þeim markaði. Það er sú leið sem við eigum að fara í málinu því hún eyðir allri óvissu.

Hæstv. forseti. Þetta er ekki flókið. Við hljótum að geta, þegar sjálf stjórnarskráin er hugsanlega í húfi, stigið varlega til jarðar. Það er öllum ljóst að margir geta haft mikla fjárhagslega hagsmuni af innleiðingunni. Þeir hagsmunir verða samt alltaf að víkja fyrir hagsmunum þjóðarinnar og ef einhver vafi er ber að eyða honum.

Ég vil leyfa mér að benda á að fyrirvarar hafa ekki haldið hingað til, ekki frekar en fyrirvarar við innflutningi á kjöti. Viljayfirlýsingar Alþingis eða annarra þjóðþinga halda ekki þegar ESB er annars vegar. Og í sambandi við innleiðingar á mörgum EES-gerðum man ég eftir í fyrravetur máli sem kom upp, EES-gerð sem fjallaði um réttindi atvinnubílstjóra. Þetta fór í lög 2015 og lögin fjölluðu um að atvinnubílstjórar sem hafa laun af því að keyra vörubíla eða rútur eða slíka bíla verða að fara á námskeið fimm sinnum á ári og borga fyrir það sjálfir til að halda skírteininu. En þessi lög, þegar þau voru innleidd, eiga aðeins við um ESB-ríki þar sem lönd liggja saman, ekki um eyjar.

Ég vil benda á að stór hópur úr öllum flokkum, þverfaglegur hópur, hefur miklar áhyggjur af þessu máli öllu og þar, hæstv. forseti, eru líka margir sérfræðingar. En ég vil líka benda á að margir þeirra sem komu að (Forseti hringir.) EES-samningnum í upphafi segja að þessari tilskipun eigi að hafna og vísa henni aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.